149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

aðgerðaáætlun í húsnæðismálum.

5. mál
[16:56]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi startlán eru fyrst og fremst félagslegt fyrirbæri fyrir þá sem eiga ekki ríka foreldra eða efnaða ættingja eða hafa ekki háar tekjur sem þeir geta lagt til hliðar af og eiga erfitt með að eignast fyrir útborgun. Þau geta verið allt að 100% í Noregi.

Hvað varðar vextina er það eitthvað sem þarf að ræða sérstaklega hér vegna þess að vextir í Noregi eru 1,8% eða eitthvað svoleiðis, á meðan óverðtryggðir vextir hérna eru 6, 7, ég veit það ekki. Það er auðvitað hlutur sem þarf að ræða.

Til að fá þessi lán þarf líka að ganga í gegnum annars konar greiðslumat, ekki jafn íþyngjandi og er hér í kerfinu. Það eru í rauninni fleiri sem gætu fengið möguleika á þessu. Hér er fyrst og fremst verið að kasta fram þeirri hugmynd að miðað yrði við húsnæði sem er ekki of stórt og ekki of dýrt og er öruggt að fólk muni geta borgað til baka.

Í þessu kerfi í Noregi, og við höfum hugsað það hér líka, eru einnig möguleikar á láni fyrir einstaklinga sem kannski verða fyrir slysi, lenda í hjólastól, verða gamlir og geta þurft að búa lengur heima, þá er hægt að sækja um slík lán og breyta íbúðunum og aðlaga að þörfum þeirra. Einnig til að brúa bil fyrir fólk sem hefur lent í mjög erfiðum aðstæðum, t.d. eftir hrunið.

Ég á nóg eftir, ég sá bara eitthvað blikka hérna. En tökum bara næstu spurningu.