149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

aðgerðaáætlun í húsnæðismálum.

5. mál
[17:05]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég minntist ekki einu orði á Reykjavíkurborg. Af einhverjum ástæðum skilur hv. þingmaður og 1. flm. það sem sérstaka árás á Reykjavíkurborg og meiri hlutann þar þegar ég spyr að því hvort ekki eigi að skilgreina skyldur sveitarfélaga til að tryggja nægjanlegt lóðaframboð. Hann verður að eiga það við sjálfan sig. En látum það liggja á milli hluta.

Ég spyr: Er það þannig að við séum að móta hér skynsamlega stefnu í íbúðamálum, í húsnæðismálum? Ég er sammála hv. þm. Loga Einarssyni um að húsnæðisöryggi sé ein af grunnþörfum okkar allra og við eigum auðvitað að gera allt til að tryggja að þeirri grunnþörf sé mætt á sama hátt og öðrum grunnþörfum okkar. En við verðum þá líka hlusta á fólkið sjálft og reyna að koma til móts við þær langanir sem það hefur. Það kemur í ljós í nýrri könnun Íbúðalánasjóðs, sem var kynnt í síðustu viku, að aðeins 8% þeirra sem eru á leigumarkaði eru þar vegna þess að þeir kjósa það. Langflestir vilja ekki vera á leigumarkaði heldur í eigin húsnæði.

Þá spyr ég: Er ekki rétt að við tökum höndum saman í þingsal og vinnum að því að láta drauma og langanir fólks um að eignast eigið húsnæði rætast, að það sé meginverkefnið? Ef við gerum það leysum við líka stærstan hluta vandans á leigumarkaði vegna þess að eftirspurn eftir leiguhúsnæði mun minnka, til verður eðlilegt leiguverð og húsnæðisöryggi verður betra, öruggara og samfélagið allt mun fá að blómstra, hv. þingmaður.