149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

aðgerðaáætlun í húsnæðismálum.

5. mál
[17:10]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Sf):

Forseti. Það er ánægjulegt að fá að taka þátt í þessari umræðu um húsnæðismál. Húsnæðismál eru nefnilega mannréttindamál eins og var nefnt hér að framan. En þau eru líka geðheilbrigðismál og barnaverndarmál.

Húsnæðiskerfið á Íslandi er ekki í lagi og fyrir því eru kannski margar og frekar flóknar ástæður. Ég held að þessi þingsályktunartillaga sé ágætt skref í að laga það. Öryggi er annað af grunnþrepunum í þarfapíramída Maslows. Við þurfum öll húsnæði og hið opinbera hefur ákveðnum skyldum að gegna þegar kemur að því.

Mig langaði sérstaklega að nefna það að hér er komið inn á að skyldur verði settar á sveitarfélög þegar kemur að félagslegu húsnæði með það að markmiði að jafna byrðar sveitarfélaga. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Ég er hérna með ársgamlar tölur. Í Reykjavík voru fyrir ári síðan um 2.650 félagslegar íbúðir og við vitum öll að þeim fjölgar ört þessa dagana. Þetta eru félagslegar íbúðir. Þá eru ótaldar íbúðir eins og búseturéttaríbúðir og aðrar íbúðir sem eru ekki í hagnaðardrifnu kerfi.

Í Kópavogi voru þær fyrir ári síðan 436 og ég hef ekki heyrt að það hafi bæst nýtt við þar. Þar er sem sagt staðan næstbest. Í Hafnarfirði 245. Svo komum við að ríkustu sveitarfélögunum hér á höfuðborgarsvæðinu. Í Garðabæ voru þær 35, í Mosfellsbæ 30, á Seltjarnarnesi 16.

Þetta er til háborinnar skammar. Það verður að gera eitthvað í því og ákveða hreinlega að það sé ákveðið hlutfall af íbúðum í hverju sveitarfélagi sem eigi að vera rekið á félagslegum forsendum. Ég veit t.d. að Seltjarnarnes á ekki byggingarland þannig að það er erfitt að mæta þessu þar. En þau sveitarfélög verða bara hreinlega að greiða fyrir félagslegt húsnæði annars staðar í einhvers konar jöfnunarsjóð.

Við þurfum öll heimili. Húsnæði er einfaldlega grunnþörf. Það er allt of mikilvægt til að það sé hægt að láta það markaðnum bara einum eftir. Opinberir aðilar hafa skyldum að gegna þegar kemur að þessum málum.

Það var aðeins talað hér um að við vildum vera séreignarþjóð. Það er vegna þess hvernig íslenski leigumarkaðurinn er. Hann er hryllingur. Hann er uppspretta róts hjá fjölskyldum, óöryggis og kvíða, fyrir utan það að húsnæðisverð er allt, allt of hátt. Það þarf hreinlega að koma böndum á þetta. Þetta er ekki svona í öðrum löndum. Í Sviss t.d. vill meiri hluti fólks bara vera á leigumarkaði, finnst það alveg fáránleg hugmynd að fara að kaupa sér íbúð í einhverri borg og þurfa að vera með garð og bílskúr og eitthvað svona. Fólk vill kannski frekar kaupa sér einhvern pínulítinn fjallakofa þar sem maður getur haft það huggulegt og slakað á en alls ekki eiga og binda fjármuni sína í þetta stórri fjárfestingu.

En á Íslandi hefur þetta verið nauðsyn. Ég held að það sé ekki þannig hjá yngri kynslóðum. Nú er ég með fjögur ungmenni heima hjá mér. Þau þurfa einhvers staðar að búa. Á næstu árum munu þau einhvern tímann flytja eitthvert annað, þau geta ekki endalaust búið í foreldrahúsum. En ég held að þau hafi engan áhuga á að eiga og reka húsnæði. Þau vilja geta búið einhvers staðar og svo vilja þau geta flutt til útlanda og komið aftur og allt mögulegt. Þetta unga fólk hugsar allt öðruvísi en mín kynslóð og eldri kynslóðir gerðu. Við þurfum virkilega að endurhugsa þessi mál á Íslandi.