149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[17:43]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, fyrir góðan félaga minn og flokksmann, hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson, sem á mestan heiðurinn af vinnunni á bak við þetta frumvarp. Hann er fyrsti flutningsmaður að því, en ásamt honum eru flutningsmenn Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Þórarinsson, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Inga Sæland, Jón Steindór Valdimarsson, Jón Þór Ólafsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Smári McCarthy, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson, Þorsteinn Víglundsson og sú sem hér stendur. Ég vildi taka þetta fram vegna þess að mig langar að sýna hversu breið samstaða er um þetta mál. Við fengum flutningsmenn úr öllum flokkum nema einum til að flytja þetta mál með okkur.

Með máli þessu leggjum við til að færa kynferðisbrotalöggjöf okkar í átt að nútímanum. Við erum að bregðast við því sem við teljum skilyrðislausa skyldu okkar til að vernda friðhelgi og mannhelgi einstaklinga innan okkar lögsögu fyrir kynferðisofbeldi, sem núverandi löggjöf verndar ekki gegn.

Ungt fólk og ungar konur sér í lagi verða í auknum mæli fyrir svívirðilegu ofbeldi af þessu tagi og núgildandi löggjöf er á engan hátt til þess bær að vernda þær gegn því. Þau sem fyrir þessu verða þurfa að mæta því þegar lögreglan tekur á móti þeim að þau geta ekki sagt hvernig var brotið á þeim þegar þau eru beitt stafrænu kynferðisofbeldi. Og í þeim fáu málum þar sem er sótt er til saka vegna stafræns kynferðisofbeldis þá er stuðst við gömul og úrelt lagaákvæði sem eiga ekki heima í nútímasamfélagi. Þar er talað um að særa blygðunarkennd. Þar er talað um ærumeiðingar. Þar er ekki horfst í augu við það að stafrænt kynferðisofbeldi er kynferðisofbeldi og það særir ekki blygðunarkennd, það nær þeim skala að það er kynferðisofbeldi og brýtur þar með á friðhelgi og brýtur þar með á einkalífi og rétti einstaklingsins til þess að mannhelgi hans sé virt í hvívetna.

Af þeim sökum leggjum við fram þetta mikilvæga frumvarp. Það er flutt í annað sinn af okkar hálfu. Þetta frumvarp hefur líka verið flutt áður af þingmönnum úr Bjartri framtíð. Þá var notast við annað hugtak einnig, þar var talað um hrelliklám eða hefndarklám. Það er hugtak sem ekki er notast við lengur, enda ekki um klám að ræða heldur ofbeldi. Þar af leiðandi höfum við að sjálfsögðu notast við uppfærða útgáfu ef svo má segja af því orðalagi sem er notast við um þessa glæpi nú til dags.

Ég má til með að geta um stóran hvata að baki þessarar vinnu við frumvarpið hjá okkur Pírötum, og ástæður þess að þetta er eitt af okkar áherslumálum á þessu þingi. Það er viðburður sem við Píratar héldum í fyrra í Norræna húsinu undir yfirskriftinni Raddir þolenda þar sem við heyrðum frá mörgum hugrökkum konum sem lýstu sinni upplifun af því að vera þolendur kynferðisbrota í íslensku réttarkerfi og móttökunum sem þær fengu og upplifun þeirra af því. Þar hélt frábær baráttukona og vinkona mín, Júlía Birgisdóttir, mjög áhrifamikla ræðu, sem ég tel að enn sé hægt að nálgast á vef Norræna hússins, um upplifun sína af því að kæra stafrænt kynferðisofbeldi til lögreglu og hversu skelfileg lífsreynsla það hefði verið að mæta ætíð lokuðum dyrum og algeru skilningsleysi alls kerfisins á því hvernig brotið hafði verið á henni. Þetta hefur hún rætt bæði í Norræna húsinu og líka í Druslugöngu fyrir ekki svo löngu síðan. Hennar ötula barátta fyrir úrbótum í þessum málaflokki hefur m.a. skilað þessu frumvarpi. Mig langar að þakka henni sérstaklega fyrir það hér í þessum ræðustól.

Svo ég snúi mér aðeins að frumvarpinu sjálfu þá vil ég víkja aðeins að því sem stendur í greinargerð með því, en þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er lagt bann við stafrænu kynferðisofbeldi og gerð refsiverð sú háttsemi að dreifa, birta eða framleiða mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings án samþykkis hans að viðlögðum sektum eða sex ára fangelsi … Í frumvarpinu er til viðbótar við upptalninguna í fyrra frumvarpi gert refsivert að „birta“ eða „framleiða“ slíkt efni án samþykkis. Þá er jafnframt lagt til að dreifing eða birting falsaðs mynd- eða hljóðefnis, hvort sem um ræðir ljósmyndir, myndbönd eða annars konar myndefni sem sýnir nekt eða einstakling á kynferðislegan hátt án samþykkis hans, verði gert refsivert … Með frumvarpinu er lagt til að slík brot geti varðað sektum eða fangelsi allt að þremur árum.“

Frumvarpið hefur einnig tekið þeim breytingum frá síðustu framlagningu að heimilt verður að refsa fyrir brot með sektum og einnig hefur verið bætt við ákvæði sem kveður á um refsiþyngingu þegar þolandi er barn undir 18 ára aldri. Þetta er eitt af mörgum viðbrögðum okkar við þeim umsögnum sem komu við þetta mál þegar það var lagt fram í fyrra. Við teljum að við höfum komið til móts við svo gott sem allar athugasemdir sem komu fram við það í fyrra og bætt úr þeim annmörkum sem þeir sérfræðingar sem komu á fund allsherjar- og menntamálanefndar við síðustu meðferð þessa máls bentu á og komu á framfæri við okkur, þar á meðal ríkissaksóknari og aðrir sem eru sérfræðingar í þessum málum. Þetta er ein af þeim breytingum, það er sem sagt til refsiþyngingar ef brot er framið gegn einstaklingum undir 18 ára aldri.

Við bættum einnig við nýrri málsgrein, sem felur í sér að ekki skuli dæma refsingu þegar verknaðurinn er forsvaranlegur og framkvæmdur í málefnalegum tilgangi. Og loks færðum við til hvar ákvæðið ætti að liggja í almennum hegningarlögum, þ.e. að í stað þess að leggja til að 1. gr. frumvarpsins yrði 210. gr. c almennra hegningarlaga, yrði hún 196. gr. almennra hegningarlaga. Þótti það að stemma betur við uppsetningu almennra hegningarlaga og ríma betur við alvarleika þess verks sem um er að ræða, þetta er sett á sama stað og kynferðisbrot og þar með ekki á sama stað og dreifing á efni sem sýnir kynferðislegar athafnir barna, svo ég orði það vonandi á réttan hátt. Þar með er líka reynt að koma til móts við athugasemdir sem komu frá sérfræðingum við síðustu meðferð þessa máls.

Svo kemur einnig fram í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Með tækniframförum undanfarinna ára og áratuga hefur það fæst verulega í aukana að mynd- og hljóðefni sem sýnir nekt eða kynlífsathafnir einstaklinga sé birt án þess að efnið hafi nokkurn tíma verið ætlað til dreifingar og án vitundar eða samþykkis þeirra sem koma þar fyrir. Slíkt efni hefur stundum verið kallað „hefndarklám“ eða „hrelliklám“. Sú orðanotkun verður þó ekki talin lýsandi fyrir verknaðinn, sem er ekki endilega ætlað að hefna neins eða hrella nokkurn og eins eru hugmyndir fólks um hvað teljist klám eru afar misjafnar. Því er hér fjallað um verknaðinn sem stafrænt kynferðisofbeldi.“

Hvað varðar gildandi löggjöf kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Í íslenskum lögum hefur verið í gildi bann við dreifingu kláms og er það að finna í 210. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Þegar efni sem inniheldur kynlífsathafnir er dreift án leyfis þeirra sem fram í því koma er dreifingin strangt til tekið brot á 210. gr. almennra hegningarlaga. Beiting ákvæðisins í baráttunni gegn stafrænu kynferðisofbeldi er þó nokkrum vandkvæðum háð.

Í fyrsta lagi er skilgreining hugtaksins „klám“ í besta falli óljós, umdeild og misjöfn eftir viðhorfum til kynlífs. Hinn almenni borgari er því ekki fær um að meta hvenær um sé að ræða klám samkvæmt lögum og hvenær ekki. Þrátt fyrir að orðið sjálft sé ævafornt og bæði dómstólar og fræðimenn hafi í tímans rás reynt að finna skilgreiningu sem allir skilja á sama hátt, er það samt svo að engin skilgreining liggur fyrir sem dómstólar, fræðimenn og almenningur geta sameinast um. Ekki er líklegt að það breytist í náinni framtíð.

Í öðru lagi felur stafrænt kynferðisofbeldi ekki endilega í sér eiginlegt klám samkvæmt neinum þeirra fjölmörgu skilgreininga sem til eru. Þótt erfitt hafi reynst að skilgreina hugtakið ríkir víðast hvar samhugur um að mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt án kynlífsathafna teljist vart til kláms nú á dögum jafnvel þótt nekt hafi eflaust fyrrum þótt klámfengin í eðli sínu. Þó telja flutningsmenn þessa frumvarps við hæfi að dreifing, birting eða framleiðsla efnis sem sýnir nekt einstaklinga án kynlífsathafna verði refsiverð ef ekki liggur fyrir samþykki frá viðkomandi einstaklingum.

Í þriðja lagi er refsiramminn í 210. gr. almennra hegningarlaga of lágur til þess að endurspegla alvarleika þessara brota. Á sama tíma hlýtur þó að þykja ótækt að hækka refsirammann fyrir dreifingu klámefnis sem þeir er fram í því koma ætluðu sannarlega til dreifingar.

Í framkvæmd hefur 210. gr. almennra hegningarlaga ekki verið beitt þegar einstaklingar eru ákærðir fyrir dreifingu eða birtingu efnis sem varða myndi við 1. gr. þessa frumvarps. Svo virðist sem háttsemin hafi einna helst verið heimfærð undir 209. gr., þar sem fjallað er um blygðunarsemisbrot, en hún ber þess merki að hafa verið sett til höfuðs annars konar hegðun en þeirri sem hér er lagt til að verði gerð refsiverð. Að mati flutningsmanna er því þörf á sérstöku ákvæði þar sem brotið er tilgreint með skýrum hætti og lagður til refsirammi sem hæfir alvarleika brotsins.“

Þá kemur kannski að því sem mér þykir líka mjög mikilvægt við þetta frumvarp og það er skýrleiki refsiheimilda. Vegna tilkomu internetsins og tilkomu samfélagsmiðla og þeirrar miklu aukningar á notkun þeirra, sérstaklega hjá ungu fólki, hefur einfaldlega komið fram ný tegund af broti sem þarf að takast á við, mjög alvarlegt brot. Þá þarf að vera mjög skýrt í okkar refsiheimildum að um brot sé að ræða við nákvæmlega þessari hegðun og ekki vísað í eitthvert úrelt ákvæði um að særa blygðunarsemi eins né neins til þess að refsa fyrir það. Mér finnst það mjög mikilvægt upp á réttarríkið á Íslandi að við höfum það alveg hreint og skýrt að stafrænt kynferðisofbeldi er kynferðisofbeldi og brot á lögum og við því eru refsingar.

Í greinargerð má einnig finna ágætisyfirlit um löggjöf í öðrum norrænum ríkjum sem ég ætla ekki að tíunda nánar hér, en hvet þingmenn til að kynna sér og aðra áhugasama. Ég ætla að drepa niður á nokkrum fleiri stöðum í greinargerðinni.

Í fyrsta lagi kemur fram á bls. 4 í greinargerðinni að það „að birta mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings án samþykkis hans er brot gegn friðhelgi hans og ein tegund kynferðisofbeldis. Mikil vitundarvakning hefur orðið undanfarin misseri vegna slíks ofbeldis, sem áður var nefnt „hefndarklám“ eða „hrelliklám“. Af þeirri umræðu verður að telja ljóst að framleiðsla, birting og dreifing slíks hljóð- og myndefnis sé ekki klám í nútímalegum skilningi, heldur ein tegund kynferðisofbeldis. Það er skylda samfélagsins að viðurkenna ofbeldið og að tryggja að við því séu viðurlög. Í því felst viðurkenning á stöðu brotaþola og fordæming á háttsemi brotamanna. Stafrænt kynferðisofbeldi getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola. Þá er það sérstaklega varhugavert í ljósi þess að ofbeldið fer fram fyrir opnum tjöldum og hefur þannig áhrif á samfélagslega stöðu brotaþola.

Þau brot sem frumvarpinu er ætlað að ná til hafa til þessa verið heimfærð undir önnur ákvæði almennra hegningarlaga. Þess eru dæmi að Hæstiréttur hafi kveðið upp dóma í málum sem samkvæmt frumvarpi þessu mætti skilgreina sem stafrænt kynferðisofbeldi. Þar má m.a. nefna dóma Hæstaréttar í málum nr. 242/2007 og nr. 312/2015, en þá voru hinir ákærðu sakfelldir fyrir brot gegn blygðunarsemi … Í síðara málinu var einnig ákært fyrir brot gegn 233. gr. b, en þar er fjallað um móðgun eða smánun á hendur maka, fyrrverandi maka eða öðrum nákomnum. Ljóst er að sú grein getur komið til álita í þeim lagaramma sem nú gildir um slík mál, þó að skilyrði til að sakfella hina ákærðu hafi ekki þótt vera uppfyllt í þessum umrædda dómi. Ef þau tengsl milli aðila eru ekki til staðar er möguleiki á því að beitt verði 234. gr. almennra hegningarlaga þar sem fjallað er um ærumeiðingar. Við beitingu 234. gr. er almenn regla að höfða þurfi einkarefsimál.

Líta verður til þess að refsiheimildum þessum er ekki ætlað að sporna gegn stafrænu kynferðisofbeldi sérstaklega“ — þ.e. gagnvart ærumeiðingum né smánun fyrrverandi maka. — „Engin þessara greina kveður beint á um refsingu vegna stafræns kynferðisofbeldis og því felur beiting þeirra í sér að ekki verður refsað fyrir hið raunverulega ofbeldisverk, heldur fyrir tengdan verknað. Þegar beitt er greinum sem hafa upprunalega annan tilgang verða refsiheimildir óskýrari og óskilvirkari. Benda má sérstaklega á að samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga er hin refsiverða hegðun talin sú að særa blygðunarsemi manna með lostugu athæfi eða að verða til opinbers hneykslis. Orðalag þetta er bersýnilega úrelt og afar óheppilegt sem gildandi refsiheimild fyrir stafrænt kynferðisofbeldi. Þá fjallar 233. gr. b sömu laga um móðgun eða smánun nákomins einstaklings. Þó að sú háttsemi geti vissulega falið í sér kynferðisofbeldi er það ekki sú háttsemi sem ætti að hafa þyngstu viðurlögin heldur ofbeldið sjálft. Hið sama á við um 234. gr. laganna þar sem fjallað er um ærumeiðingar. Þá sætir brot gegn 234. gr. almennra hegningarlaga ekki ákæru skv. 242. gr. sömu laga og er því nauðsyn að höfða einkarefsimál sem verður að teljast ótækt þegar um alvarlegt ofbeldismál er að ræða.

Með því að gera stafrænt kynferðisofbeldi refsivert samkvæmt 196. gr. verður það hluti af XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot. Þannig er tryggt að slík brot sæti ávallt rannsókn þegar grunur leikur á um brot og ákæru þegar sönnunargögn teljast nægileg.

Nauðsynlegt er að alvarleg brot á borð við stafrænt kynferðisofbeldi hljóti eigin refsiákvæði með möguleika á þyngri viðurlögum en er að finna við klám-, blygðunarsemis- og ærumeiðingarbrotum. Í gildandi hegningarlögum er ekki að finna bein viðurlög við stafrænu kynferðisofbeldi.“

Þetta er það sem við erum að leggja til að laga með þessu frumvarpi okkar. Við höfum lagt mikla vinnu í þetta. Við gerðum það bæði við meðferð málsins í fyrra þar sem við lögðum okkur mjög fram við að koma til móts við allar þær athugasemdir sem komu fram við meðferð málsins í allsherjar- og menntamálanefnd og við erum að sjálfsögðu mjög opin fyrir öllum athugasemdum sem fram koma í meðförum þessa máls í allsherjar- og menntamálanefnd nú, og opin fyrir því að bæta málið betur. Við teljum líka að það sé mjög mikilvægt að þetta mál njóti stuðnings og fái góða meðferð í þinginu á þessum þingvetri og teljum ekkert því til fyrirstöðu að það sé hægt að samþykkja málið núna. Við erum meðvituð um að það er starfshópur á vegum ríkisstjórnarinnar að skoða m.a. þessi mál og teljum að þetta frumvarp gæti verið ágætisinnlegg í þá vinnu. Við teljum hins vegar að þolendur stafræns kynferðisofbeldis hafi beðið nógu lengi eftir því að brotin gegn þeim séu viðurkennd í almennum hegningarlögum á Íslandi, og okkur finnst því ekkert að vanbúnaði að hefja þá vinnu strax og samþykkja þetta frumvarp.

Að lokum legg ég til að þetta mál fari til viðeigandi meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd og hlakka til umræðunnar um það.