149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:51]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið heils hugar undir það þótt mér finnist reyndar fyrsta skrefið einmitt vera að viðurkenna vandann líka og það erum við að sjálfsögðu að gera hér í þessum ræðustól, við tvö hv. þingmaður. Mér þykir þó leitt að sjá að það er ekki alls kostar viðurkenning á þessum vanda í samfélaginu. Það vantar talsvert upp á, að mér finnst, sérstaklega að þeir sem valdið hafa gagnvart þessum málaflokki og valdið hafa til að breyta hlutum til betri vegar viðurkenni að um stórfelldan vanda sé að ræða. Við sem berum ábyrgð í samfélaginu skuldum þolendum og því miður verðandi þolendum að almennilegt kerfi taki á móti þeim, þá ekki bara í réttarvörslukerfinu heldur einmitt líka í heilbrigðiskerfinu eins og hv. þingmaður minntist á, líka gagnvart áfallahjálp og lengri tíma meðferð sem fólk á rétt á. Þá eiga, eins góð og þau eru, ekki bara frjáls félagasamtök að sinna því að byggja upp þolendur eftir kynferðisbrot svo dæmi sé nefnt, hvað þá börn sem hafa verið misnotuð í lengri tíma eða hafa upplifað langvarandi ofbeldi.

Í okkar kerfi er mjög takmarkaður stuðningur í boði fyrir fólk sem hefur orðið fyrir áföllum, sér í lagi börn sem hafa orðið fyrir mjög miklum áföllum í æsku. Með því að búa ekki til almennilegt umhverfi fyrir þau erum við í raun og veru að búa til brostna framtíð fyrir einstaklinga sem hefðu getað gefið mikið af sér og átt gott líf.

En þetta eru stærri spurningar en ég ætla hv. þingmanni að svara í þessu andsvari nú. Ég vildi einfaldlega að velta því upp að það er að sjálfsögðu tilefni til stærri aðgerða en þessara þótt þetta sé að sjálfsögðu mikilvægt skref sem við erum að stíga núna. Ég þakka hv. þingmanni fyrir stuðninginn og fyrir meðflutninginn.