149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[19:05]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá góðu umræðu sem hefur átt sér stað um þetta mikilvæga mál og fara yfir nokkur sjónarmið sem mér tókst ekki að grípa í andsvörum en þykir mikilvægt að koma inn á.

Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson kom aðeins inn á refsirammann og ræddi þar almennt um að sumum kynni að þykja sem með sex ára refsingu við stafrænu kynferðisofbeldi væri heldur langt seilst, að það væri aðeins of há refsing við broti sem þessu án þess að hún legði sjálf dóm á það eins og ég skildi hana. Við því langaði mig einfaldlega að segja að nú erum við að ræða um kynferðisofbeldi og við höfum mjög breiðan refsiramma, t.d. fyrir nauðgun þar sem við erum að tala um allt að 16 ára refsingu fyrir það brot. Þess vegna finnst mér alveg eðlilegt að við broti sem þessu, broti sem jafnvel gæti aukið á nauðgun ef við gefum okkur að hún sé tekin upp á myndband og því dreift til ævarandi geymslu á internetinu, liggi a.m.k. sex ára fangelsisdómur þegar um alvarleg brot er að ræða. Við brugðumst líka við athugasemdum gagnvart því að við hefðum ekki inni þessa lægstu mögulegu útgáfu sem væri sektir og settum þær inn vegna þess að þessi brot geta vissulega verið margvísleg og misalvarleg og ýmis atriði sem geta komið til refsilækkunar að sjálfsögðu án þess að við viljum setja einhver skilyrði fyrir því nákvæmlega.

Svo langaði mig að ræða aðeins um það sem komið var inn á af nokkrum hv. þingmönnum gagnvart umsögn Dómarafélagsins, því að réttarfarsnefnd hefði ekki farið yfir þetta og að það vantaði nánari yfirlegu. Því skal hins vegar haldið til haga að saksóknarar, lögreglan, Stígamót, ýmis kvenréttindafélög, ýmsir aktívistar gegn nauðgunarmenningu og aðrir sérfræðingar hafa lagt þessu verkefni lið á einn eða annan hátt sem við kunnum þeim miklar þakkir fyrir og viljum taka fram að við hvetjum Dómarafélagið til að leggja okkur lið við vinnu þessa mikilvæga máls. Við hvetjum líka réttarfarsnefnd til að leggja okkur lið við það og einfaldlega að ráðast í þá vinnu sem henni finnst vanta upp á, ef svo ber undir, til að ljúka megi þessu máli þrátt fyrir að um þingmannamál sé að ræða. Við erum hv. þingmenn þessa þings, löggjafarvaldið, og hljótum að hafa rétt til að setja þá löggjöf sem við teljum þarfa á Íslandi. Til hvers værum við hér annars?

Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra. Mig langar að þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessum umræðum og vil sérstaklega þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir að taka þátt, eina karlinum sem tók þátt í umræðu um nákvæmlega þetta umræðuefni en ekki um afglæpavæðingu vímuefna eins og annar hv. karlþingmaður tók þátt í áðan en það sneri ekki að efni þessa frumvarps. Þetta gildir svo sem oft um þessa málaflokka og er miður.

Ég vil þó halda því til haga að 1. flutningsmaður þessa máls er hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson en ég mæli fyrir því í forföllum hans. Hann stendur að sjálfsögðu, eins og við öll sem erum flutningsmenn þessa frumvarps sem og fleiri sem tóku til máls í umræðunni, heils hugar á bak við málið og við teljum að það muni fá góða, vandaða og málefnalega meðferð í meðförum nefndarinnar að þessu sinni.

Ég vil líka greina frá því að ég talsvert bjartsýnni á að þetta mál nái fram að ganga í þetta sinn en síðast. Það er lagt fram fyrr, það er betur unnið að því leytinu til að við höfum tekið tillit til flestra athugasemda og þó að það hafi ekki ratað inn í hrossakaup síðasta vors, þ.e. svokallaða þinglokasamninga, sem var ein meginástæðan fyrir því að það náði ekki í gegn síðast, er góður möguleiki á því að nú verði það þannig ef við erum neydd til þess.