149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

26. mál
[19:22]
Horfa

Flm. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta og stuðninginn við málið sem ég met mikils. Eftir að hafa lesið dómaframkvæmd í þessum málum þá kom mér það á óvart hversu lágan þröskuld ákvæðið þó setur. Ástæðan fyrir þessu getur verið margþætt, held ég. Það að rökstuddur grunur sé um einhvers konar mögulegt refsivert brot eða að friði verði á annan hátt raskað virðist setja aðeins hærri þröskuld sem samt er tiltölulega óljós. Eitt atriði er kannski að það er ekki nægilega skýrt hvaða vægari úrræði mætti vera búið að reyna þegar að þessu kemur, en dómaframkvæmdin er vissulega aðeins mismunandi. En þegar sagt er að ekki megi raska á annan hátt friði brotaþola og sakborningur er farinn að verða þess valdandi að brotaþoli breytir sínum háttum, hlýtur það að þýða að verið sé að raska friði brotaþola.

Ég held að með því að gera hér skýrari greinarmun á því hvað er tryggingaráðstöfun og hvað er þvingunarráðstöfun komi það skýrt fram að við erum bara að tryggja frelsi og frið brotaþola til að lifa sínu lífi án ofsókna og ofbeldis. Það er það sem ég vonast til að ná fram með einhverjum hætti með þessum breytingum samanlagt á þessum lögum, sem annars eru og voru vel unnin. Þá tel ég að þessar breytingar í heild sinni geti vonandi haft áhrif á dómaframkvæmdina, það að við erum bara að biðja um tryggingaráðstöfun en ekki að leggja mat á brotið sjálft.