149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

26. mál
[19:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og tek undir þá von hennar að þetta verði til þess og tel að þetta geti orðið mjög til bóta í framkvæmd þessara mála.

Mig langaði að tæpa einmitt á því hvað varðar vægari úrræði að það eru fleiri dæmi um það í okkar löggjöf að fyrst verði að reyna vægari úrræði áður en þvingunarráðstöfunum er beitt. Það er kannski þess vegna sem ég spurði hvers vegna dómskerfið hefði verið tregt við beita þessum þvingandi úrræðum vegna þess að vægari úrræði hafi ekki verið nýtt.

Nú tala ég kannski af tilfinningu frekar en að ég hafi skoðað marga dóma, ég hef bara orðið vör við þetta, að það virðist oft vera lágur þröskuldur fyrir því að vægari úrræði hafi verið reynd þegar kemur að ýmsum þvingunarráðstöfunum sem ríkið beitir þegna sína, þar á meðal gæsluvarðhald og einangrunarvist. Það er mjög skýrt að öll vægari úrræði verði að hafa verið reynd eða séu ótæk. Þar virðist samt sem áður oftast vera möguleiki á því að dæma menn í gæsluvarðhald eða einangrun þrátt fyrir að það megi færa fyrir því rök að vægari úrræði gætu alveg verið reynd, sérstaklega er kemur að yngri brotamönnum og öðru slíku. Mér hefur fundist vanta að litið sé til þess. En í þessu tilfelli, þegar kemur að því að vernda, við skulum segja aðallega konur sem eru í ofbeldissamböndum eða þá sem þurfa að þola einmitt eltihrella, þá virðist kerfið eiga voðalega erfitt með að bregðast við og finnst það þurfa að líta til vægari úrræða. Ég er kannski að fiska eftir því hvort hv. þingmanni finnist vera um einhvern kerfislægan vanda að stríða sem varði kannski jafnrétti kynjanna. En það er kannski stærri spurning en við getum rætt að einhverju ráði nú.

Mig langaði líka að fagna því að hv. þingmaður ætlar að fylgja þessu máli meira eftir hvað varðar refsingu við broti á nálgunarbanni. Út frá því langaði mig að spyrja hv. þingmann hvort henni finnist að það þurfi eitthvað að gera gagnvart viðbragðsgetu lögreglu í slíkum málum og hvort það vanti eitthvað upp á að lögregla geti brugðist hraðar og betur við, ekki bara gagnvart refsingum heldur einnig gagnvart því að tryggja öryggi brotaþola á vettvangi strax.