149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Aftur og aftur fáum við að heyra um aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda og að tíminn sé að renna út til að gera eitthvað í loftslagsmálum. Takmark Parísarsamkomulagsins eins og við þekkjum er að halda hlýnun jarðar innan við 2°C og helst innan við 1,5°C. Kveikur fjallaði um þetta á dögunum og nú í morgun birti Hagstofan tölur þess efnis að Ísland hefði mesta losun koltvísýrings á einstakling í Evrópu. Þegar svona fréttir dynja á okkur er auðvelt að missa móðinn og verða sinnulaus, segja sem svo: Það skiptir engu máli hvað Ísland gerir. Við erum svo lítil, það er allt að fara til helvítis hvort sem er.

En ég vil trúa því að við Íslendingar séum ekki sinnulaus. Í þætti Kveiks var líka fjallað um lausnir en þær verða að vera margþættar. Mikið hefur verið fjallað um orkuskipti í samgöngum, sem eru auðvitað mikilvæg, sem og að auka hlutfall fólks sem nýtir sér almenningssamgöngur. Endurheimt votlendis er einn þáttur sem skiptir máli en það snýst um að ná vatnsyfirborðinu aftur upp. Það er hægt að gera t.d. með því að stífla skurði til að stöðva losunina og breyta gömlu ræktarlandi í mýri aftur. Það er nauðsynlegt að vinna þetta verkefni í samvinnu við bændur þar sem það á við.

Að mínu mati er þó einn allra mikilvægasti hluti í bindingu kolefnis stóraukin skógrækt í samstarfi við vörslumenn landsins, bændur. Þeir hafa eljuna og þolinmæðina til að vinna að verkefnum sem bera ávöxt eftir áratugi. Þessi ríkisstjórn ætlar að færa þeim tækifæri til þess að planta skógi á skala sem ekki hefur áður þekkst á Íslandi, klæða þetta kalda, vindbarða land skógi til þess að við stöndum okkar plikt í losun gróðurhúsalofttegunda og til að skila landinu í betra ásigkomulagi til næstu kynslóðar.

Það fer vel saman við breytta búskaparhætti. Fólki starfandi í hefðbundnum landbúnaði hefur fækkað áratugum saman um allan heim en við í þessu stóra landi þurfum að hafa ljós á næsta bæ. Það er mikilvægara fyrir okkur en stórar þjóðir í litlum löndum. Til þess þurfum við líka að gera bændum sem það vilja kleift að skipta úr hefðbundnum landbúnaði í skógrækt þar sem það á við. Í metnaðarfullri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar eru 34 aðgerðir og verður tæpum 7 milljörðum kr. varið til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum á næstu fimm árum. Aldrei hefur svo miklum fjármunum verið varið í þessi brýnu málefni. Það skiptir nefnilega máli að hafa Vinstri græn í stjórn.