149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Á óvissutímum getum við Íslendingar alltaf gengið að einu sem gefnu, að með lögbundnu millibili komi Seðlabanki Íslands og gefi út arfavitlausar stýrivaxtaákvarðanir. Einn slíkur morgunn var í morgun og hefur sú stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands fengið eftirfarandi einkunnir hjá málsmetandi fólki: Hún er ótímabær, hún er með ólíkindum, hún er stríðsyfirlýsing og köld kveðja inn í kjaraviðræður.

Seðlabankastjóri sagði í morgun að óvissa út af kjarasamningum væri eins og ský yfir þjóðinni. Á sama tíma kastar hans spreki á þann óvissueld. Seðlabankastjóri sagði líka að nú væru meiri verðbólguvæntingar en hefðu verið lengi. Á sama tíma kastar hann lurki á verðbólgubálið.

Herra forseti. Ég veit satt að segja ekki hvað gengur á í Seðlabankanum. Án gamans þá hélt ég áður en ég opnaði Fréttablaðið í morgun að það hefði eitthvað með loftræstinguna í bankanum að gera, að menn hefðu ekki nóg súrefni þarna eða eitthvað. Málið er að þetta er alvarlegt og þetta er ekki í fyrsta skipti sem Seðlabankinn fer á taugum út af kjarasamningunum. Það er næsta víst að með ákvörðuninni sýnir Seðlabankinn, peningastefnunefnd og seðlabankastjóri að þau hafa engu gleymt og ekkert lært.

Það sem er algjörlega víst er að í Seðlabankanum heyrast ekki raddir þjóðfélagsins. Seðlabankinn hefur reyndar girt fyrir það núna að svo gerist með því að kaupa sérstök heyrnartól fyrir alla starfsmenn. Það er alveg klárt að rödd þjóðarinnar og þjóðfélagsins mun ekki heyrast inn fyrir múra Svörtulofta. Málið er hins vegar að Seðlabankinn, peningastefnunefnd og seðlabankastjóri eru sjálfstætt efnahagslegt vandamál. Við því eru tvær lausnir: Að skipta um stefnu og skipta um áhöfn.