149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

314. mál
[16:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. alþingismanni fyrir fyrir andsvarið. Þannig háttar til um þennan málaflokk að þótt dómsmálaráðherra fari með eftirlit með peningaþvætti er þetta málaflokkur sem heyrir undir fjármálaráðherra alla jafna. Flestar þær stofnanir sem um ræðir heyra undir fjármálaráðherra, fjármálaráðuneytið, eins og skattheimtan.

Hv. þingmaður fullyrðir reyndar að það sé hægara um vik að hafa eftirlit með höfuðstöðvum sem staðsettar eru í tilteknum ríkjum sem hann nefnir lágskattaríki. Nú hefur verið mikil alþjóðleg vakning um það sem menn hafa viljað kalla skaðsemi slíkra ríkja í samkeppni við við önnur ríki. Á síðustu misserum og árum, einkum misserum, hefur samstarf ríkja aukist mjög hvað skatteftirlit yfir landamæri varðar. Ég er ekki viss um það, kannski hefur hv. þingmaður einhverjar tölur um það, að það sé eitthvað erfiðara að haga gagnvart þeim ríkjum sem á annað borð eru í samstarfi við önnur ríki um skatteftirlit. Þeim hefur fjölgað mjög. Einnig þeim sem skilgreind hafa verið sem lágskattaríki.

Menn hafa þannig alveg greiðan aðgang að upplýsingum í skattalegu tilliti, þ.e. í þeim tilgangi að hafa uppi skatteftirlit. Menn hafa verið í miklu samstarfi við þessi ríki líka.

Það sem hv. þingmaður er í rauninni að leggja til er aukaskattur á fyrirtæki eða einstaklinga sem kjósa að vera með einhvers konar skráningar í þessum ríkjum. Ég er svo sem fyrir fram efins um að það geti staðist. En hvað þetta frumvarp varðar kallar það bara á hefðbundið eftirlit með fleiri aðilum en nú er gert. Ég held að menn ættu að sjá hvernig það reynist í framkvæmd (Forseti hringir.) áður en þeir setja frekari þröskulda þar.