149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

314. mál
[16:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í skýrslunni um eignir Íslendinga á aflandssvæðum stendur þetta, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld þurfa að horfast í augu við það að skilgreining, utanumhald og eftirfylgni með söfnun gagna er vinnuaflsfrek starfsemi, en hérlendis hefur sú vinna og kostnaður sem leggja þarf í ef vanda skal til verka einatt verið vanmetin hrapallega. Má nefna ársreikningaskrá og Peningaþvættisskrifstofu sem dæmi um að Ísland hafi þurft að sæta ámæli, jafnvel á alþjóðlegum vettvangi vegna ófullnægjandi vinnubragða.“

Þarna er nú tekið svolítið djúpt í árinni. Þegar fjallað er í greinargerð með frumvarpinu um áhrif á ríkissjóð er talað um að bæta þurfi í starfsstöður. Það er talað um ein fjögur stöðugildi, sýnist mér, allt í allt.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að það sé nægilegt. Þetta eru víðtækar breytingar, sýnist mér, sem verið er að gera sem hljóta að kalla á mikla vinnu. Þar sem við höfum verið aftarlega á merinni í úrvinnslu gagna hingað til og fengið á okkur gagnrýni innan lands og utan vegna þess, spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún telji að það sé nægilegt sem gert er ráð fyrir og kemur fram á blaðsíðu 37 í frumvarpinu um áhrif á ríkissjóð.