149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.

30. mál
[17:29]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessarar tillögu og styð hana því heils hugar, en mér finnst mikilvægt að ræða aðeins við hv. framsögumann um nemendahópinn sem er líklegur til að sækja skóla af þessu tagi og kannski einnig þá lýðháskóla sem fyrir eru í landinu.

Það kom fram við umfjöllun allsherjar- og menntamálanefndar á 145. þingi þegar fjallað var um tillögu að löggjöf um starfsemi lýðháskólanna að nám í lýðháskóla gæti eflt almenna lífsleikni ungmenna, skapað nemendum tækifæri til að finna sínar sterku hliðar og bætt náms- og starfsfærni nemenda á ýmsan hátt. Mig langar að spyrja hv. framsögumann hvort við eigum einhverjar greiningar eða kannanir á því hvaða nemendahópur væri líklegur til að sækja svona skóla hér á landi.

Það er þekkt að um 100 íslenskir nemendur stunda nám í lýðháskólum á Norðurlöndum á hverju skólaári og því má velta fyrir sér hvort æskilegt sé eða líklegt að sá nemendahópur myndi leita í skóla innan lands eða hvort við séum að horfa á annan nemendahóp og þá jafnvel hvort æskilegt væri að fá nemendur annars staðar frá Norðurlöndunum til að sækja hingað, ekki síður en að okkar nemendur fari annað.