149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

40 stunda vinnuvika.

33. mál
[19:07]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að ég geti í flestu tekið undir tilgang þessa frumvarps. Ég held að við eigum að hafa í heiðri 1. desember um ókomna tíð með þeim hætti sem hér er lagt til.

Ég hef hins vegar ákveðnar athugasemdir við frumvarpið, þó að ég taki undir tilgang þess, þ.e. að gera 1. desember að almennum frídegi með sama hætti og 17. júní. Ég held að það séu bara sömu rök þar að baki og tek heils hugar undir orð hv. fyrsta flutningsmanns, Þorsteins Sæmundssonar. Það sem ég vil hins vegar benda á er að auðvitað erum við að taka ákvörðun um að auka kostnað atvinnulífsins með því að bæta inn einum frídegi. Við þurfum að vera meðvituð um að það erum við að gera. Ekki síst þegar við horfum til þess, þegar við berum okkur saman við aðrar þjóðir, að t.d. orlofsréttur launafólks hér er töluvert betri en í velflestum samkeppnislöndum okkar. 28–30 dagar er ekki óalgengt. Auk þess eru aðrir frídagar. Þeir eru misjafnlega margir. T.d. eru jólin misjafnlega heppileg eða hagstæð fyrir launafólk, hvernig hittist á helgar og virka daga o.s.frv., en þetta eru um 11–12 dagar á ári sem bætast við þessa orlofsdaga.

Ég velti því fyrir mér hvort flutningsmenn hafi hreinlega hugsað út í (Forseti hringir.) hvort það væri skynsamlegt að t.d. fella þá sumardaginn fyrsta niður á móti þessari tillögu að taka upp 1. desember sem almennan frídag.