149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[19:32]
Horfa

Flm. (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um Alexandersflugvöll sem varaflugvöll fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll. Auk mín eru flutningsmenn á þessu máli Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorsteinn Sæmundsson.

Tillagan er svohljóðandi: Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að láta gera ítarlega athugun á kostum þess að gera Alexandersflugvöll á Sauðárkróki að varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður könnunarinnar eigi síðar en í janúar 2019.

Í greinargerð segir:

Þingsályktunartillaga svipaðs efnis var lögð fram á 144. löggjafarþingi (527. mál), á 147. löggjafarþingi (23. mál) og 148. löggjafarþingi (168. mál) en náði ekki fram að ganga og er þessi tillaga þess vegna fram komin.

Öryggi samgangna þarf að tryggja með sem bestum hætti, hvort sem um er að ræða samgöngur á jörðu, sjó eða í lofti. Núna eru fjórir meginflugvellir á Íslandi, Reykjavíkurflugvöllur, Keflavíkurflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur og Akureyrarflugvöllur. Þessir flugvellir gegna allir mikilvægu hlutverki í samgöngum innan lands og milli landa sem farþega- og vöruflutningavellir og sem öryggistæki.

Vegalengdir milli þessara valla eru nokkrar en styst er á milli Reykjavíkurflugvallar og Keflavíkurflugvallar, um 50 km. Milli Akureyrar og Reykjavíkur eru um 390 km, milli Reykjavíkur og Egilsstaða um 650 km og milli Akureyrar og Egilsstaða um 265 km. Af þessu má sjá að vegalengdin milli Reykjavíkur og Egilsstaða er allnokkur og sýndi það sig berlega að verulegt óhagræði var að því þegar gaus í Eyjafjallajökli að Alexandersflugvöllur var eini flugvöllurinn sem nýttist og mikilvægi hans sannaðist að sama skapi.

Milli Sauðárkróks og Akureyrar er vegalengdin aðeins um 120 km, sem tekur einungis rúma 1½ klst. að aka. Milli Sauðárkróks og Reykjavíkur eru í kringum 295 km sem er rúmlega þriggja klst. akstur. Íbúar höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja búa við það að í næsta nágrenni eru virk eldfjallasvæði eins og Bláfjöll og Krýsuvík. Land er að rísa í Krýsuvík og jarðskjálftar tíðir á þeim slóðum sem kallar enn og aftur á vangaveltur um stöðu samgangna til og frá höfuðborgarsvæðinu sem og til og frá landinu. Það kann því að vera mikilvægur öryggisþáttur fyrir landsmenn og gesti landsins að öryggi þeirra til samgangna sé tryggt enn frekar.

Augljóst er að töluverðu munar á vegalengdum og ferðatíma á milli Egilsstaða og Reykjavíkur annars vegar og Sauðárkróks og Reykjavíkur hins vegar. Akureyrarflugvöllur er mikilvægur fyrir allt Norðurland, ekki síst vegna aukins farþegaflugs innan lands og til útlanda, og Egilsstaðaflugvöllur er að sama skapi mikilvægur fyrir Austurland. Þá gegnir flugvöllurinn á Akureyri lykilhlutverki til sjúkraflugs.

Alexandersflugvöllur er vel staðsettur þar sem aðflug er gott, fjörðurinn víður og lítið um hindranir. Flugvöllurinn vísar í norður/suður, sem eru einnig ríkjandi vindáttir á þeim slóðum, og þá er staðsetning vallarins hagstæð með tilliti til snjóa. Í gögnum frá Vegagerðinni kemur fram að þjóðvegurinn frá Sauðárkróki til Reykjavíkur hefur aðeins verið lokaður í 0,7 daga á ári frá árinu 2011 en á sama tíma hefur þjóðvegurinn frá Egilsstöðum til Reykjavíkur lokast í 2,5 daga á ári á syðri leiðinni en 9,7 á norðurleiðinni. Einnig er vakin athygli á því að frá Sauðárkróki til Reykjavíkur og til Akureyrar sem og til Egilsstaða eru fleiri en ein leið og því er möguleiki á varaleið ef þjóðvegur 1 lokast. Því er ljóst að staðsetning vallarins er góð sé litið til færðar og samgangna á landi.

Flutningsmenn telja einsýnt að verulegur ávinningur gæti verið að því að byggja Alexandersflugvöll upp sem varaflugvöll fyrir Reykjavík og Keflavík. Þá er augljóst að slíkur flugvöllur mun þjóna Akureyri og Egilsstöðum vel sem varaflugvöllur og tryggja og treysta þá mikilvægu starfsemi sem er rekin í sambandi við ferðaþjónustu og flug almennt. Í ljósi þessa er því beint til ráðherra að ráðast í nauðsynlega undirbúningsvinnu og rannsóknir til að hægt sé að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd og er lagt til að ráðherra láti kanna kosti þess að gera Alexandersflugvöll á Sauðárkróki að varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. Ráðherra kynni niðurstöður þeirrar könnunar eigi síðar en í janúar 2019.

Eftir þessa umræðu mæli ég með að þessu máli verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar.