149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[12:30]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna í þessu ágæta máli. Mig langar í fyrra andsvari að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort komið hafi til álita að hafa þakið hlutfall af heildarkostnaði fyrirtækisins við rannsóknir og þróun fremur en að hafa það absalútt tölu og þá jafnvel hvaða hlutföll, ef menn hafa eitthvað skoðað það, hafi komið til greina.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á í andsvari hér rétt áðan eru sum þessara fyrirtækja orðin býsna stór og í sumum rannsóknum geta rannsóknir jafnvel á einni einstakri vöru verið ákaflega dýrar, tökum sem dæmi í heilbrigðisgeiranum, í lyfjum og þess háttar, þar sem auðvelt er að komast upp undir þakið jafnvel við eina vöru. Það getur kannski skipt máli fyrir þau fyrirtæki að hlutfall kæmi frekar til álita en absalútt tala.