149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[12:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er í sjálfu sér ekki með neitt endanlegt svar við þessu. Ég bendi bara á að endurgreiðsluhlutfallið gæti breyst um 5 eða 10%, eða eitthvað svoleiðis, og ég myndi vilja hlusta á geirann um frekari breytingar. Það kemur líka til greina að á ákveðnu veltubili sé endurgreiðsluhlutfallið einhver prósenta sem síðan lækki eftir því sem endurgreiðslubeiðnirnar verða hærri. Annað sem hefur ekki verið nefnt hér í þessari umræðu fram til þessa er krafan um að fyrirtæki sem fá verulegar endurgreiðslur hafi höfuðstöðvar á landinu og greiði þannig sína helstu skatta til ríkisins. Það er eitt atriði sem mér finnst eðlilegt að komi til skoðunar, ef menn eru áfram um að auka við ívilnanir, að menn séu þá ekki eingöngu með afmarkaðar þróunarskrifstofur á Íslandi til að tryggja sem mestar endurgreiðslur, en standi síðan skil á sköttum og öðrum gjöldum í einhverri allt annarri skattalögsögu.