149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

fjármálafyrirtæki.

303. mál
[13:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ekki kunnugt um sjónarmið endurskoðenda sérstaklega um þetta atriði en hér er sem sagt um að ræða sérreglu sem snýr að eftirlitsskyldum aðilum sem um margt búa við sérstakt regluverk. Þetta er svona enn ein varúðarreglan sem veltir á vissan hátt eftirlitsskyldunni, flöggunarskyldunni, á þá sem hafa tekið að sér ábyrgðarstörf fyrir fjármálafyrirtæki.

Það má ekki að horfa fram hjá því í þessu sambandi að jafnvel þótt um trúnað milli verkkaupa og endurskoðenda sé að ræða í þessum tilvikum eins og öðrum, þá leggur auðvitað fjármálakerfið allt og ég vil segja atvinnulíf á Íslandi mjög mikið traust á það starf sem þar er unnið og þær upplýsingar sem gerðar eru opinberar á grundvelli þeirrar vinnu.

Hversu langt eigi að ganga í þessu efni finnst mér vera mikið álitamál og ég rakti það í framsögu minni að það getur verið mjög háð túlkun hvenær um er að ræða atriði sem geta mögulega haft áhrif á áframhaldandi rekstur fyrirtækis og þannig kallað fram skylduna til tilkynningar til Fjármálaeftirlits. Þetta eru atriði sem mér finnst að eigi að koma til skoðunar og kalla eigi eftir sjónarmiðum þeirra sem starfa í þessu umhverfi við þinglega meðferð.