149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

kjarabætur til öryrkja.

[15:26]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Fátækt fólk á ekki að bíða eftir réttlæti, voru orð sem núverandi hæstv. forsætisráðherra sagði hér í salnum fyrir um ári síðan. Ég er þessum orðum sammála og þess vegna er það með öllu óskiljanlegt að fresta eigi kjarabótum öryrkja vegna þess að nefnd á vegum félagsmálaráðherra hefur ekki staðið sig í stykkinu, ef ég skil orð efnahags- og fjármálaráðherra rétt og höfð voru eftir honum í fjölmiðlum. Ég vil leyfa mér að hugsa upphátt hvort ekki sé byrjað á fullkomlega röngum enda. Ég vil líka velta því upp hvort það sé virkilega þannig að öryrkjar geti ekki fengið eina einustu kjarabót fyrr en kerfisbreytingar hafa gengið í gegn. Ómöguleg verkstjórn félagsmálaráðherra á ekki að bitna á öryrkjum. Við erum að ræða um heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Er sanngjarnt að leggja það undir? Er sanngjarnt að sá hópur fólks sem hefur það hvað verst í landinu verði látinn bíða enn og aftur?

Ég vil því spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvernig hann fái það út að ekki standi til að draga úr fjárframlögum til örorkulífeyrisþega um rúman milljarð í tillögum meiri hlutans þegar um er að ræða fjárlög þessa árs.