149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

lækkun framlaga til öryrkja í fjárlögum.

[15:36]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég hélt að við værum einmitt að ræða hvernig við gætum teygt okkur til öryrkja til að bæta kjör þeirra. Það sem Öryrkjabandalagið biður um og það sem öryrkjar biðja um er að við afnemum skerðingar til að losa þá úr fátæktargildru, sem mér heyrist hæstv. fjármálaráðherra vera sammála um að sé fátæktargildra.

Hæstv. ráðherra virðist líka vera sammála því að fjárfesta eigi í fólkinu í landinu. Af hverju gerum við það ekki núna? Hefur hæstv. ráðherra reiknað út hvað fátækt kostar okkur á Íslandi? Eða er ráðherra ósammála því að það sé yfir höfuð fátækt á Íslandi? Ég er viss um að öryrkjar, sem ætla að mæta á þingpallana á morgun, eru mjög ósammála ráðherra, þeir öryrkjar sem lifa í fátækt.

Hvað kostar fátækt okkur? Hvað mun það kosta að halda öryrkjum í fátækt aðeins lengur þangað til þessar kerfisbreytingar eru tilbúnar? Hvernig reiknar hæstv. ráðherra út að það sé sparnaður að viðhalda skerðingunum? Hann hlýtur að telja þetta sparnað, eða hvers vegna erum við annars að þessu? Ég vil sjá excel-skjalið þar sem útreikningarnir hafa farið fram.