149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

tekjuskattur.

335. mál
[15:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér með fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt. Þetta frumvarp hefur að geyma tillögur að breytingum sem fela það í sér að uppbætur á lífeyri vegna tiltekins kostnaðar og uppbót vegna reksturs bifreiðar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð teljist ekki til skattskyldra tekna og skerði þar með ekki lífeyrisgreiðslur almannatrygginga.

Með ályktun Alþingis um skattleysi uppbóta á lífeyri, nr. 28/148, á 148. löggjafarþingi 2017–2018, 649. mál, þskj. 1268, var ákveðið að leggja skyldi fram lagafrumvarp sem leysti undan skattskyldu uppbætur á lífeyri og uppbót vegna reksturs bifreiðar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Við gerð frumvarpsins skyldi m.a. haft samráð við félags- og jafnréttismálaráðherra með það að markmiði að tryggja að uppbót á lífeyri teljist ekki til skattskyldra tekna og skerði þar með ekki lífeyrisgreiðslur almannatrygginga.

Ég ætla ekki að fara út í umræðu um það að segja má að þingið hefði svo sem getað ákveðið að leggja fyrir frumvarp um málið og taka afstöðu til þess, en gott og vel, við erum hér komin í tilefni af því að fyrst var samþykkt þessi þingsályktunartillaga um að frumvarpið skyldi koma fram og nú er það komið fram.

Að loknu því samráði sem kallað var eftir er ljóst að bætur þessar teljast ekki til tekna í skilningi laga um félagslega aðstoð og því er ekki þörf á því að kveða sérstaklega á um að undanþága frá skattskyldu framangreindra uppbóta á lífeyri skuli ekki skerða lífeyrisgreiðslur almannatrygginga.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð er heimilt að greiða einstaklingi, sem fær greiddan elli-, örorku- eða endurhæfingarlífeyri, uppbót á lífeyri vegna framfærslukostnaðar ef sýnt þykir að lífeyrisþegi geti ekki framfleytt sér án hennar. Við mat á því hvort hann geti framfleytt sér án uppbótar skal taka tillit til eigna og tekna. Með þessum greiðslum er komið til móts við útgjöld umfram venjulega framfærslu einstaklinga sem viðkomandi ber og fær ekki endurgreidd eða bætt á annan hátt. Má þar nefna umönnunarkostnað, sjúkra- og lyfjakostnað, kaup á heyrnartækjum, húsaleigukostnað umfram húsnæðisbætur o.fl. Samkvæmt reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri getur lífeyrisþegi sem er með heildartekjur á mánuði upp að 235.648 kr. notið uppbótar á lífeyri. Þá mega eignir viðkomandi í peningum og verðbréfum ekki vera umfram 4 millj. kr. Jafnframt er tiltekið hámark á uppbótinni til lífeyrisþega eftir hjúskaparstöðu og hvernig heimilishaldi og umönnun er háttað. Á árinu 2017 námu framangreindar uppbætur á lífeyri 156 millj. kr. sem greiddar voru til 1.318 einstaklinga. Tveir stærstu kostnaðarliðirnir að baki þeirri fjárhæð eru vegna lyfjakostnaðar öryrkja og dvalar á sambýli, samtals 114 millj. kr. Meðalgreiðsla á lífeyrisþega var 118.000 kr. á ári, tæplega 10.000 kr. á mánuði.

Í 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð segir að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. sömu laga gilda sömu reglur um rekstur bifreiðar þegar um hreyfihamlaðan lífeyrisþega er að ræða. Þessi uppbót er ekki háð tekjum eða eignum lífeyrisþega. Árið 2017 námu útgreiddar uppbætur til hreyfihamlaðra lífeyrisþega samtals 1.108 millj. kr. en mánaðarlegar bætur á hvern einstakling voru 14.387 kr., tæplega 173.000 kr. á ári. Samkvæmt tölum frá Tryggingastofnun fengu 6.418 einstaklingar greidda uppbót á lífeyri vegna reksturs bifreiða á árinu 2017.

Þetta eru sem sagt á árinu 2017 útgreiddar uppbætur til hreyfihamlaðra rúmlega 1,1 milljarður, mánaðarlega á hvern einstakling 14.387 kr. sem gera tæplega 173.000 kr. á ári, og vegna reksturs bifreiða voru það 6.418 einstaklingar sem fengu greidda uppbótina.

Ég vil segja að ég held að flytjanda upphaflegrar þingsályktunartillögu hafi tekist vel að afmarka hér mjög veikan hóp, hóp sem stendur illa. Það má segja að þau skilyrði til að njóta uppbótarinnar séu svo ströng að það sé algjörlega óumdeilt að við erum ávallt hér að tala um fólk í mjög veikri stöðu. Þess vegna er mjög auðvelt að hafa samúð með því sjónarmiði að við ættum að hætta skerðingum vegna greiðslu slíkrar uppbótar. Það eina sem ég myndi vilja halda til haga í þessu efni er að það er ákveðinn ókostur í kerfinu í heild þegar við erum með ólíkar skerðingarreglur eftir ólíkum bótaflokkum. Við þyrftum helst að komast á þann stað að vera með heildstæðara kerfi sem tæki vel utan um fólk og við gætum gengið út frá því að við værum að ná til ólíkra hópa og þeirra sem væru í sérstaklega veikri stöðu með grunnréttindunum, sé það á annað borð hægt. Eins og við höfum verið að ræða hér í dag stendur yfir heildarendurskoðun á kerfinu. Sé þetta á annað borð hægt myndi maður vilja sjá fyrir sér kerfi þar sem væru fáar undantekningar frá skerðingunum. Í kerfinu eins og það er uppbyggt í dag verður að viðurkennast að skerðingar á þessum tilteknu réttindum virðast koma dálítið harkalega niður. Þess vegna á þetta mál fullt erindi hér inn í þingið og ég stend með málinu eins og það er hér lagt fram.

Við höfum lagt mat á áhrif frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt. Þeir sem hafa fengið greiddar uppbætur í þessum flokkum munu sjá ráðstöfunartekjur aukast sem nemur greiddum tekjuskatti og útsvari og tekjur ríkis og sveitarfélaga lækka þá um samsvarandi fjárhæð. Ef við miðum við verðlagsforsendur eins og þær sem voru til grundvallar fjárlagafrumvarpinu má reikna með að greiðslur á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð verði í kringum 170 millj. kr. og greiðslur vegna reksturs bifreiðar í kringum 1.200 millj. kr. og er þá miðað við óbreyttan fjölda. Þannig mun samanlagður staðgreiðslustofn tekjuskatts og útsvars lækka um samtölu þessara tveggja talna, þ.e. hann mun lækka um 1.370 milljónir á næsta ári gangi þessi áætlun eftir. Það þýðir að útsvarið lækkar um nálægt 200 milljónir og tekjuskattur ríkisins um 300 milljónir.

Það er erfiðara um vik að meta áhrif breytingarinnar á tekjuskatt ríkisins vegna nýtingar persónuafsláttar sem alfarið er fjármagnaður af ríkissjóði. Þá hækka greiðslur barnabóta og vaxtabóta lítillega verði frumvarpið að lögum. Það er varla tala sem þarf að nefna mikið í þessu samhengi, þetta eru einungis 5 milljónir á ársgrundvelli. Þess vegna er samtalan af þessu tvennu, þ.e. hvað útsvarið lækkar til sveitarfélaganna og tekjuskatturinn, um 500 milljónir.

Ég vil taka það fram að þegar ég hef hér verið að tala um að skerða bætur hef ég auðvitað í þessu samhengi þessa máls verið að tala um skattlagningu þeirra, þ.e. að þær komi ekki að fullu og óskertar af sköttum til lífeyrisþeganna.

Ég hef hér rakið helstu efnisatriði málsins. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, ég tel að sá sem hvati til framlagningar þessa frumvarps í upphafi hafi náð að benda á hóp sem stendur höllum fæti og uppfyllir greinilega samkvæmt öðrum lögum skilyrði þess að teljast í sérstaklega veikri stöðu þar sem hann er í þörf fyrir uppbætur á lífeyri. Það eru ágætissanngirnisrök með því að slíkar uppbætur verði þá undanþegnar skatti.

Ég mælist til þess að frumvarpið fari til efnahags- og viðskiptanefndar og síðan til 2. umr að lokinni þessari.

(Forseti (SJS): Það mátti reikna með því.)