149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:46]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er bók sem ég er mjög hrifin af sem heitir Tíu ástæður fyrir því að við höfum rangt fyrir okkur um heiminn og hvers vegna hlutirnir eru betri en þú heldur, eftir Hans Rosling, eðlisfræðing og samfélagsrýni. Ég tel að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson ætti jafnvel að hafa þá bók hugfasta þegar hann rýnir menntamálin núna og það sem er að gerast í þeim.

Staðreyndin er sú að framhaldsskólastigið fær aukningu. Staðreyndin er sú að aukningin í rekstri er 3,7% á milli ára. Í fjárlögum 2018 voru það 31,5 milljarðar en 32,5 milljarðar árið 2019. Það er aukning. Það er staðreynd. Hækkun á hvern nemanda er 12% á milli ára. Ég vil líka ítreka að nemendum er að fækka út af styttingunni og við erum ekki að skerða framlögin hvað það varðar. (Forseti hringir.)

Hv. þingmaður nefndi líka jöfnunarstyrkinn. Ég ætla aðeins að skýra hvað er að gerast í sambandi við hann.