149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ætli þetta sé ekki í fyrsta sinn sem einhver hefur stungið upp á því að fjárheimildir minnki í fjárlagaumræðu? Ég veit það ekki alveg. En á móti erum við með aðra breytingartillögu þar sem er hækkað á móti. Það sem við erum þá að gera er að finna allar þær heimildir sem við sjáum ekki að séu útskýrðar. Við erum að mínusa þær frá og bæta við öðrum verkefnum, sem eru útskýrð, og fjárheimildum til þeirra útskýrðu verkefna í staðinn. Á málefnasviði 27, sem eru 5 milljarðar, er t.d. 1 milljarður í ég veit ekki hvað. Ég veit að 4 milljarðar fara í kerfisbreytingar en við vitum ekki hverjar þær eiga að vera þannig að það er óútskýrt eins og er. Við tökum þá 4 milljarða til baka, í mínus, en leggjum til afnám krónu á móti krónu í plús. Þá verður komin útskýrð hækkun á fjárheimildum á móti. Þannig er það, ef það svarar spurningunni.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að við erum að koma úr lægð eftirhrunsáranna. Fjárlög ríkisins hafi í rauninni verið í algeru lágmarki. Ég veit ekki hvort endilega sé hægt að tala um gríðarlega hækkanir eða hvort við séum bara að ná eðlilegu ástandi. Það er það sem ég hef kvartað undan að vanti varðandi tölfræðina og þess vegna spyr ég oft í fyrirspurnum um það hvernig staðan á því hafi verið alveg til 2006 eða 2005 eða 2003 eða hvenær sem það er, til þess að fá raunhæfan samanburð sem er ekki litaður eða dreginn niður af lágu meðaltali hrunáranna.

Ég held að við séum nokkurn veginn að komast á þann stað sem við vorum á fyrir bóluárin fyrir hrun eða eitthvað því um líkt. Við erum undir því t.d. í samgöngumálum. Það má taka tillit til þess að það er hægt að segja: Jú, við erum að fara í rosalegar hækkanir. En við höfum samt ekki náð því (Forseti hringir.) hlutfalli sem við vorum áður með í samgöngumálum, þannig að ég ætla ekki beint að segja að við séum komin í einhverjar rosalegar hækkanir. Ég held að við séum komin í eitthvert jafnvægi.