149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir andsvarið. Það eru ekki sterkar fullyrðingar sem eru hafðar uppi af minni hálfu eða flokksins í þessum efnum, heldur er eingöngu hvatt til þess að farið sé með gát og bent á að þetta mál er óupplýst, þó að hv. þingmaður kunni að búa yfir meiri upplýsingum en t.d. fjárlaganefnd hafa verið veittar í málinu á þeim fundi sem ég vitnaði til. Samkvæmt þeim atvikum sem þá voru uppi, sem voru þau að þeir sem voru þar til svara, sérfræðingar af hálfu ríkisstjórnarinnar, höfðu ekki til að bera sérfræðiþekkingu í þessum efnum. Þess vegna er nauðsynlegt, ekki síst í ljósi þess annars vegar að hér er um mikið fé að ræða og í öðru lagi vegna þess að framtíðin er óljós, að gerð sé gangskör að því að upplýsa, þar á meðal fjárlaganefnd og náttúrlega þingheim allan, um staðreyndir málsins þannig að hægt sé að taka raunhæfar og upplýstar ákvarðanir í þessum efnum.