149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra mjög skemmtilega og áhugaverða umræðu. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að minn flokkur, Viðreisn, hefur einmitt talað fyrir mikilli ábyrgð í ríkisfjármálum og við höfum ekki viljað leggja fram einhverjar bólgnar útgjaldahugmyndir. Þess vegna segi ég: Ég get alveg tínt upp tölur fyrir hæstv. ráðherra hér og nú. Skrúfum til baka 1,1 milljarðs lækkun á öryrkja. Tökum milljarð í að tryggja ellilífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum lágmarkskaupmáttaraukningu á næsta ári og tökum milljarð í að byggja hjúkrunarrými. Þetta eru 3 milljarðar. Það er sama upphæð og í áformum um lækkun á veiðigjöldum á næsta ári. Þetta dygði til og væri hin ágætasta breyting í okkar huga.

Það er engin ábyrgð í ríkisfjármálunum sem flokkur hæstv. fjármálaráðherra hefur praktíserað, að ætla að gera hvort tveggja í senn, stórauka útgjöld og slá einhver met. Við verðum að átta okkur á því, hæstv. fjármálaráðherra, að þið eruð rétt að byrja á þeim loforðum sem þið hafið veitt miðað við þetta. Þið ætlið að auka útgjöldin svo miklu, miklu, miklu meira á næstu þremur til fjórum árum án þess að hækka skatta.

Ég er einfaldlega að segja að það er strax komið í ljós á ári eitt í fjármálaáætlun ykkar að þau áform eru algerlega óraunhæf án þess í það minnsta að grípa til þess kunnuglega ráðs, sem hefur verið í hinum hagsveifluaukandi íslensku ríkisfjármálum alla tíð, að hækka skatta ofan í kólnandi hagkerfi. Því er ég á móti. Þetta er ekki tímapunkturinn til að hækka skatta og það er alger óþarfi að vera að taka umræðu um að hækka skatta. Þetta er tímapunkturinn þar sem við þurfum að sýna ráðdeild í rekstri, þetta er tímapunkturinn þar sem við þurfum að tryggja að við förum vel með það fé. Ég segi að með lágmarksvinnu hefði verið hægt að fara talsvert betur með það fé sem fer í ríkisfjármálin í þessu frumvarpi en hér er lagt upp með.