149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:13]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í 50. gr. þingskapalaga segir að við umfjöllun um þingmál og aðra þætti, með leyfi forseta, „skal ráðherra leggja fram þær upplýsingar sem hann hefur aðgang að og hafa verulega þýðingu fyrir mat þingsins á málinu.“

Við höfum í mörg ár kallað eftir því að fá grundvöllinn fyrir þeim upphæðum sem er verið að leggja fram, bæði í fjármálaáætlun og fjárlögum, og hafa stofnanir í landinu verið að kalla eftir því sama og kvartað við okkur í nefndarvinnu okkar um að þær viti ekki hvaða upphæðir þær eru að fá. Eru þetta verðbætur, eru það hækkanir á þeim grundvelli? Er það vegna þeirra verkefna sem er verið að setja í þeirra hendur?

Ég nefndi þetta við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktsson, frammi í matsal áðan og hann sagði: Já, þessar upplýsingar ættu ráðuneytin að veita. Ég vona að það sé bara það sem gerist, að nú gerist þetta. Þingmenn eiga að geta beðið um þetta og að sjálfsögðu á ráðuneytið að veita slíkar upplýsingar. Þá er það skjalfest og þið getið bara spurt Bjarna Benediktsson, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, að því nákvæmlega. Kannski hef ég misskilið eitthvað en ég vona ekki.

Þetta er það sem við ætlum að gera og við þurfum að fá þessar upplýsingar.