149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:10]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég ætla að byrja á því að segja, af því að ég var spurð í lok viðtals, alveg í blálokin var mér bent á að ég færi ekki með réttar tölur. Komið hefur fram að króna á móti krónu getur kostað á bilinu 12–15 milljarða, eitthvað svoleiðis, ef allt er tekið inn. Það fer auðvitað eftir því hvernig það er útfært og ég biðst velvirðingar á því hér í pontu Alþingis að hafa sagt þessar tölur.

Ég lagði hins vegar þá milljarða til viðbótar við þessa fjárhæð sem við höfum talað um hér undanfarið, þ.e. þessa 4 milljarða, því að ég leit ekki svo á að þeir 4 milljarðar ættu endilega að fara í afnám krónu á móti krónu skerðingu. Ég hélt að þar væri verið að fjalla um eitthvað annað, einhver önnur úrræði í kerfinu, því að þetta snýst væntanlega ekki bara um afnám krónu á móti krónu skerðingar.

Formaður Öryrkjabandalagsins hefur sagt að hægt væri að afnema krónu á móti krónu á morgun, burt séð frá vinnu starfshópsins. Þess vegna hef ég litið á það þannig að starfshópnum hafi hálfpartinn verið falið að finna út úr því hvað þeir gætu gert við þessa peninga. Ég leit á það þannig að þeir væru þá fyrir utan það.