149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:12]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég deili að mörgu leyti þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður nefnir hér um sundurliðanir og gagnsærri upplýsingamiðlun þegar við erum að ganga frá jafn stóru verki og fjárlagafrumvarp er. Við höfum oft rætt það og höfum setið lengi saman í fjárlaganefnd, í mörg ár. Við getum almennt, held ég, verið sammála um að þetta er stöðugt að komast í betra form.

Eins og ég nefndi í ræðu minni missti ég af þeim vikum sem fóru í gestakomurnar en ég get aftur á móti vitnað um að frá þeim tíma sem ég hef setið í fjárlaganefnd hefur orðið mikil bragarbót á upplýsingamiðlun og framsetningu gagna. Þau eru líka mjög mismunandi á milli ráðuneyta og við höfum rætt það í hv. fjárlaganefnd að koma á meiri samfellu á milli ráðuneyta og að við fáum gögnin meira samræmd þannig að okkur reynist þetta léttara.

Ég ætla bara að segja, virðulegi forseti, að mörg ráðuneyti gera þetta listavel.

Við erum með markmið í okkar fjármálaáætlun um hvernig við notum fjármuni. Við erum enn að feta einstigi í breyttu lagaumhverfi. Okkur hefur enn ekki tekist að taka heilan hring í því lagaumhverfi að fjalla um ársskýrslur ráðherra. Ég held, hv. þingmaður, að við komum ekki að þeim punkti sem mér fannst gagnrýni þín beinast að fyrr en við förum að fjalla um ársskýrslur ráðherranna, þegar við förum raunverulega að mæla árangurinn af fjármununum og áherslunum á móti þeim áherslum sem lagðar voru.