149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:19]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Er til of mikils mælst, hv. þm. Logi Einarsson, að ekki sé snúið út úr orðum sem flutt eru í ræðustól Alþingis? Ég nefndi orðið skattakrumlu í samhengi við eldsneytisskatta. Það var í engu öðru samhengi. Ég var að ræða um að við þyrftum að taka umræðu og ákvörðun um aðra fjármögnunarleið samgönguframkvæmda. Við þurfum að endurskoða álögur á ökutæki og eldsneyti og létta skattakrumlunni á móti ef við ætlum að fjármagna vegagerð með öðrum hætti þannig að við séum ekki að búa til tvöfalda skattbyrði á þá vegfarendur sem um þá vegi fara.

Ég óska eftir því að hv. þingmaður virði það við mig að ég ítreki þennan hluta ræðu minnar við hann. Í öðru samhengi talaði ég ekki um skattakrumlu.

Ég talaði aftur á móti um það, virðulegur forseti, að það sé ekkert endilega eðlilegt að við eyðum alltaf öllum þeim árangri sem við náum með stækkandi landsframleiðslu og lækkandi skuldum til að auka ríkisútgjöld. Mér finnst það reyndar bara alveg fullkomlega óeðlilegt. Ég var að færa rök fyrir því að við ættum að skila þeim fjármunum aftur til skattgreiðenda. Það voru nú öll hræðilegu orðin sem ég hafði í þessum ræðustól, hv. þm. Logi Einarsson.