149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er fullkomlega fær um að lesa í samhengi hlutanna. Miðað við hvernig hv. þingmaður talaði um skatta og notaði svo orðið skattakrumlu er ekki óeðlilegt að maður dragi þessa ályktun.

Má ég þá spyrja hv. þingmann hvort honum finnist það t.d. eðlilegt að frá 1998 hafi skattheimta á lægstu launin aukist, á sama tíma og skattheimta á hæstu tekjurnar hafa minnkað? Má ég þá spyrja hv. þingmann, fyrst honum finnast tillögur Samfylkingarinnar svona glórulausar, hvort honum finnist óeðlilegt að fólk sem nánast getur baðað sig í peningum, fólk sem á hundruð milljóna, milljarða, fólk sem getur borgað sér milljarða út á nokkrum árum úr útgerðarfyrirtækjum, leggi aðeins meira til samneyslunnar en fólkið sem sat hér á pöllunum áðan og er með milli 200.000 og 300.000 kr. á mánuði?