149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:22]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit um hlýtt hjarta hv. þm. Loga Einarssonar. Ég tel að ég hafi ekkert síður hlýtt og gott hjarta en hann. Ég vil vekja athygli á því að laun hafa hækkað og það er þess vegna sem skattar á lægstu laun hafa hækkað.

Ég þekki því miður ekki þetta ríka fólk sem baðar sig upp úr peningum. Mér finnst ekkert óeðlilegt að við sækjum skatta á eignir fólks og tekjutengjum þá með einhverjum hætti. Ég hef aldrei talað um það með öðrum hætti. En þegar nefndir eru útgerðaraðilar og milljarðagreiðslur út úr útgerðarfyrirtækjum er það ljóti punkturinn við það kerfi sem við höfum haft — kannski ættum við bara að ræða um veiðigjöld fyrst og fremst á þá sem selja sig út úr þessum fyrirtækjum og kannski þá sem seldu sig út í upphafi.

Ég veit ekki hvar þessi umræða endar eiginlega. En jöfnuður og eðlileg skattheimta, lægri skattheimta, nýtist best þeim sem lægstu launin hafa. (Forseti hringir.) Vonandi tekst okkur að lækka skattbyrði þeirra.