149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:40]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þeir fjármunir sem Alþingi Íslendinga mun samþykkja að veittir verði til þessa málaflokks frá 1. janúar — og það er aukning og það er gott að það komi fram hérna að það er aukning — 2,9 milljarðar, 2.900 milljónir, (IngS: Í hvað?) munu að sjálfsögðu nýtast til öryrkja. Ég veit ekki í hvað annað á að nota þá. Útfærslan á því mun taka mið af því sem kemur út úr þeirri vinnu sem er þegar í gangi um innleiðingu á nýju almannatryggingakerfi. Það liggur algerlega ljóst fyrir að það er í fyrsta lagi aukning á næsta ári, í öðru lagi mun sú aukning nýtast þessum hóp og í þriðja lagi er ástæðan fyrir því að þetta hefur dregist sú að vinnan hefur dregist. Þegar niðurstöður koma úr þeirri vinnu getum við útfært með hvaða hætti þessum fjármunum verður ráðstafað þannig að það styðji við þá hugsun (Forseti hringir.) sem ríkisstjórnin markaði við myndun þessa stjórnarsáttmála, um innleiðingu á breyttu endurhæfingarkerfi, starfsgetumati og breyttu (Forseti hringir.) almannatryggingakerfi þar með. (Forseti hringir.) Í þessu eigum við mjög gott samráð við Öryrkjabandalagið, (Forseti hringir.) Þroskahjálp og aðra aðila.