149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég deili algjörlega þessari skoðun og hv. þingmaður dró það mjög vel fram í ræðu sinni hvað er hægt að gera og hvernig hægt er að ná árangri. Ég held reyndar, því miður, að við höfum kannski ekki endilega horft á þetta sem forvarnaúrræði þegar við fórum af stað með því að lækka greiðsluþátttökuna og gera fólki þannig kleift að sækja í auknum mæli í sjúkraþjálfun. En árangurinn er markverður og hv. þingmaður dró það fram í ræðu sinni. Við getum tekið þetta sem dæmi til að skoða önnur svið vegna þess að við eigum að horfa á forvarnir, vil ég meina, í breiðara samhengi með úrræði á þessu sviði. Við eigum auðvitað að horfa á forvarnir alveg frá vöggu til grafar. Ég hef mikið talað um skipulagt barna-, unglinga- og æskulýðsstarf, mikilvægi þess sem forvarnir, vegna þess að allar rannsóknir sýna að það styður ungt fólk til framtíðar á lífsleiðinni.

Ég ætla í seinna andsvari að koma inn á athyglisvert atriði sem hv. þingmaður dró fram, forsendur fjárlaga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 2,9% verðbólgu og svo er sett inn 0,5%, það er 0,5% launaþróun, þannig að það eru 3,4%. Nú er komin ný verðbólguspá. Við erum í fyrsta skipti að upplifa það svolítið að hún versnar á milli júní og nóvember. Það hefur ekki gerst undanfarin ár. Á sama tíma er Seðlabankinn búinn að hækka vexti, þannig að við setjum 3,6%, sem er sannarlega hækkun. En værum við ekki bara svolítið að segja: Við höfum enga trú á peningastefnu ef við ætluðum að fara eitthvað hærra með þetta en það?