149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir prýðisræðu. Hv. þingmaður setur sig mjög vel inn í mál, enda situr hann í hv. fjárlaganefnd. Ég fór í andsvar við hv. þingmann eftir framsögu minnihlutaálits og ágætt nefndarálit 2. minni hluta, sem er einmitt hv. þm. Björn Leví Gunnarsson. Ég get ekki staðist mátið að koma aftur í andsvar sem snýr að lögum um opinber fjármál og síðan að framhaldi af andsvari við hv. þm. Jón Þór Ólafsson, samflokksmanns hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar. Nú er ég búinn með helminginn af fyrra andsvari í að útskýra þetta.

Þetta snýr að fjárveitingavaldinu, þeirri gagnrýni að við séum að einhverju marki að færa fjárveitingavaldið frá Alþingi yfir til framkvæmdarvaldsins. Ég ætla að bera niður í nefndaráliti hv. þingmanns, þar sem segir á bls. 5, með leyfi forseta:

„Hinn hluti rökstuðningsins fyrir því að þingið sé að glata fjárveitingavaldinu snýr að heimild ráðherra til þess að skipta fjárheimildum upp í fjárveitingar, að þingið samþykki bara almennar heimildir til málefnasviða og málaflokka en ráðherra geti svo gert það sem honum sýnist innan hvers málaflokks. Sú gagnrýni er hins vegar ekki réttmæt með öllu.“

Mér finnst þetta mjög gott og ákvað að draga þetta hér fram af því að ég er algerlega sammála hv. þingmanni. Það er margt gott við lög um opinber fjármál en ég verð að koma inn á það í seinna andsvari. Ég vildi bara draga þetta fram.