149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni prýðisræðu. Eins og hv. þingmaður sagðist ætla að gera í upphafi ræðu sinnar kom hann aðallega inn á skattamál annars vegar og samgöngumál hins vegar.

Ég vil einkum nefna tvennt, af því að hann beindi fyrirspurn til mín varðandi fjármagnstekjuskattinn. Það er hárrétt sem hv. þingmaður sagði, að samhliða hækkun úr 20% í 22%, yrði skattstofninn endurskoðaður. Ég veit ekki betur en að sú vinna sé í gangi.

Ég get alveg skilið flækjustigið við það sem var rætt, að taka einhvern veginn tillit til verðbótaþáttar, inn í skatthlutfallið. Ég held að það sé bara of flókið. Það hefur verið mín skoðun alla tíð. Svo getum við auðvitað velt fyrir okkur út frá skattstigi hversu hár fjármagnstekjuskattur getur orðið og má verða áður en við erum farin að draga úr hvata til sparnaðar. Við getum farið í þær vangaveltur.

Tekjuhliðin er meira til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd en ekki hægt að slíta hana þannig frá fjárlagafrumvarpinu að ég geti ekki svarað fyrir tekjuhliðina líka. Þetta er mín skoðun.

Ég hef ekki sérstakar fréttir af því hvernig endurskoðunin gengur en það má vel vera að þær upplýsingar liggi fyrir inni í efnahags- og viðskiptanefnd.

Síðan nefndi hv. þingmaður samgöngurnar og þær 500 milljónir. Ég kem inn á það í seinna andsvari.