149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

aukatekjur ríkissjóðs.

4. mál
[21:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Ég tel þetta frumvarp vera afar óheppilegt inn í þær aðstæður sem ríkja í íslensku efnahagslífi. Við sjáum fram á hækkandi verðbólgu og erfiða kjarasamninga fram undan og þá kemur ríkisvaldið fram og hækkar fjölmargar gjaldskrár og leyfisveitingar langt umfram raunkostnað. Þetta hefur í för með sér að vísitala neysluverðs hækkar, lán okkar landsmanna hækka og verðbólgan hækkar. Í mínum huga er þetta ákaflega óskynsamleg ráðstöfun og ég er mjög hissa á ríkisstjórninni að ganga fram fyrir skjöldu á þann hátt.

Ég vil velta því upp og spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að sú ráðstöfun sé afar óheppileg inn í komandi kjaraviðræður, sem allir gera sér grein fyrir að koma til með að vera erfiðar, og hvort hann sjái jafnvel fyrir sér að eitthvað af þeim hækkunum, sem eru verulegar á ákveðnum liðum, verði dregnar til baka í komandi kjaraviðræðum.