149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Berglind Häsler (Vg):

Herra forseti Ég fagna því að nú sé í fyrsta sinn verið að móta matvælastefnu fyrir Ísland og vonast til þess að sjá róttæka niðurstöðu. Íslenskur landbúnaður stendur á krossgötum, við þurfum að auðvelda kynslóðaskipti. Fyrir tæpum fimm árum fluttum við fjölskyldan frá Reykjavík í sveit á Austfjörðum. Markmiðið var að gera snakk úr heimaræktuðu, lífrænu grænmeti. Þetta fór vel ef stað, við fengum ágætan stuðning til að byrja með en hindranirnar voru líka margar. Nefni ég þar helst skort á þriggja fasa rafmagni, lélegt internetsamband, erfiðar samgöngur, mikinn flutningskostnað, háan húshitunarkostnað og lítinn stuðning við lífræna ræktun og óhefðbundnar búgreinar.

Eftir mikla þróunarvinnu og nýsköpun fór framleiðslan í gang og fljótlega vorum við komin á þann stað sem margir framleiðendur þekkja, það var kominn tími til að stækka og auka framleiðsluna. Við reyndum að laða að okkur fjárfesta og samstarfsaðila til að efla framleiðsluna. Það gekk ekki sem skyldi og á endanum neyddumst við til að setja framleiðsluna til hliðar og einbeita okkur að öruggari tekjum.

Þetta er sennilega saga margra bænda og framleiðenda á Íslandi í dag. Það þarf að borga þessa reikninga. Mig langar að nýta þetta tækifæri til að brýna fyrir verkefnisstjórn um matvælastefnu að sýna hugrekki í sínu starfi. Það er mikið talað um nýsköpun og það er mikil krafa um nýjar og ferskar hugmyndir, sem er vel, en það er ekki síður mikilvægt að styðja við öll þau fjölmörgu verkefni sem þegar eru unnin um allt land á hverjum degi með blóði, svita og tárum.

Loftslagsmálin þurfa að vera leiðarstef þessarar stefnu og í því samhengi hlýt ég að nefna lífrænan landbúnað. Hefjum íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu upp til þeirrar virðingar sem hún á skilið. Ísland hefur alla burði til að vera í fararbroddi hvað varðar fjölbreyttan, sjálfbæran og arðbæran landbúnað.