149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:14]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fjárlagafrumvarpið ber þess merki að stjórnarflokkarnir ætla að standa við þau fyrirheit sem gefin eru í stjórnarsáttmálanum. Framlög til umhverfismála eru stóraukin. Enn er aukið framlag til heilbrigðismála. Og framlög til öryrkja hækka umtalsvert milli ára. Uppbygging innviða heldur áfram. Heildaraukning í framlögum nemur ríflega 4,5% að raunvirði. Breytingar á skattkerfinu halda áfram með hækkun persónuafsláttar. Þá heldur áfram sú vegferð að gera skattkerfið grænna, sem er í samræmi við áherslur stjórnvalda í umhverfismálum.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fagnar ársafmæli eftir rúma viku. Í tvennum fjárlögum hafa framlög til heilbrigðis- og félagsmála einna hækkað um meira en 75 milljarða. Deilt niður á vikur eru það 750 milljónir á viku í aukin framlög til málaflokkanna. Auðvitað eru næg verkefni fram undan og verkinu hvergi nærri lokið. En þessi fjárlög styrkja stoðir velferðarkerfisins, efla innviði og gera umhverfið betra. Við höldum áfram að bæta samfélagið.