149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:46]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hér er um að ræða tillögu um 400 millj. kr. neyðaraðstoð sem eyrnamerkt er hjálparstarfi UNICEF fyrir börn í Jemen, sem nú upplifa hörmungar sem heimsbyggðin fylgist með vanmáttug. Auðvitað ættu engin börn að þurfa að þola slíkar hörmungar.

Framtíð okkar jarðarbúa hvílir á þeirri ábyrgð sem við höfum í höndum okkar, ekki síst ríkustu þjóðirnar. Þar þurfum við að vinna saman. Ísland er 11. ríkasta land í heimi en er ekki hálfdrættingur í þróunarsamvinnu á við það sem lagt er til í markmiðum Sameinuðu þjóðanna. Við ættum þó frekar en margir aðrir að skilja mikilvægi þess að þjóðir veiti hver annarri aðstoð þar sem við þáðum styrki úr þróunarsjóði Sameinuðu þjóðanna til 1976.