149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þessi tillaga snýr að því að fjölga stöðugildum hjá Samkeppnisstofnun um tvö. Ég talaði við þá fyrir svona rúmu ári síðan. Eins og staðan er núna þá borga þeir þau með þeim sektum sem þeir leggja á, þeir borga fyrir starfsfólk sitt og vel það.

Svo landsmenn og þingmenn sem greiða atkvæði um þessa tillögu átti sig á því hvað um er að ræða þá er skortur á samkeppni í landinu sem Samkeppnisstofnun gæti sinnt betur ef hún hefði meira fjármagn. Hún er með mikið af góðum tillögum þannig að hún gæti sinnt hlutverki sínu betur. Það sem það kostar landsmenn í vöruverði sem þeir borga úti í búð er jafnmikið og hærra virðisaukaskattsþrepið. Það sem leggst ofan á vöruverð hjá neytendum í landinu vegna skorts á samkeppni eru 24–25%. Með því að fjölga starfsfólki hjá Samkeppnisstofnun sem er löngu búin að borga fyrir sitt starfsfólk gerum við ekkert annað en að auka samkeppni og lækka vöruverð. Og viti menn! Ef við fylgjumst með The Economist þessa vikuna er þetta einmitt það sem þeir kalla nauðsynlegt skref til að bjarga kapítalismanum. Þannig að ég sé ekki annað en að hægri menn hljóti að greiða atkvæði með þessu.