149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég freistast til að teygja aðeins úr mér til að minna á tvo litla þætti sem eru undir því að við fljótum hérna í gegnum allar þessar tölur og þennan texta án þess oft að stunda núvitund og muna hvað við erum að gera. Í þessum lið erum við m.a. að leggja til 400 millj. kr. framlag til stuðnings útgáfu íslenskra bóka, mjög mikilvægt menningarpólitísk mál, og við erum að leggja til að fjármagna Barnamenningarsjóð um 100 millj. kr. á komandi ári, hið fyrsta af fimm árum samkvæmt ályktun sem við samþykktum flest í ágætu veðri á Þingvöllum í sumar. Það er rosalega mikilvægt skref hér að daginn eftir alþjóðlegan dag barnaréttinda séum við að leggja 100 millj. kr. í sjóð til að styrkja börn til virkrar þátttöku í menningarlífi, í listsköpun, hönnun og nýsköpun til að leyfa röddum þeirra að heyrast.