149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:55]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ríkisstjórnin fer mikinn í umræðunni og dregur ekkert af sér, segist leggja mikið til í framlögum í heilbrigðiskerfið. Í umræðunni ægir öllu saman, stofnframkvæmdum, steinsteypumannvirkjum og rekstrinum, þ.e. að veita þjónustu frá degi til dags. Starfsmenn og stjórnendur bíða enn eftir að ungfrú Stórsókn banki á dyrnar.

Stóru sjúkrahúsin tvö, Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri, stríða þegar við rekstrarvanda og hafa boðað erfiðleika í árslok. Á Landspítalanum einum er boðaður halli sem nemur jafnvel 2 milljörðum í árslok. Þarna er hörfað undan. Þarna er ekki sótt.

Ég segi nei við áherslum ríkisstjórnarinnar, en já við breytingartillögum Samfylkingarinnar.