149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Fátækasta fólkið á Íslandi bíður enn eftir réttlæti í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Ríkisstjórnin hefur mætt öryrkjum með kylfu og gulrót að vopni. Gulrótin er sú að þeir fái bætur, en kylfan er sú að þeir þurfi að samþykkja starfsgetumat sem ekki er tilbúið. Öryrkjar hafa ekki orðið við því og súpa nú seyðið af því og fá þessa nöturlegu jólagjöf frá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Það er alveg rétt sem fram kom áðan, það skiptir máli hverjir stjórna. Öryrkjar þessa lands eru einmitt núna að komast að því að það skiptir verulegu máli. Þeir þurfa enn um sinn að bíða eftir því réttlæti sem þeim var lofað vegna þess að félagsmálaráðherra og starfshópur hans hafa ekki skilað sínu verki eins og lög gera ráð fyrir. Það er engin trygging fyrir því að það starf verði búið núna á vormánuðum eins og boðað er. Þannig að öryrkjar þurfa enn um sinn að bíða eftir réttlæti vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.