149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:56]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Um þessa tillögu áttum við góðar umræður hér í þinginu á mánudag við 2. umr. fjárlagafrumvarps. Skýringarnar að baki þessu eru m.a. þær kerfisbreytingar sem eru í undirbúningi og fjármagn sem er ætlað í þær í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. Af hverju verðum við að ræða þetta í samhengi við kerfisbreytingar? Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kom inn á það áðan hver aukningin væri á milli ára til þessa málaflokks. Aukningin til málefnasviðs 27 hefur aukist úr 42 milljörðum í 63 milljarða frá árinu 2015. Það er ráðgert að þessi aukning haldi áfram og verði árið 2030 komin upp í 90 milljarða miðað við enga aukningu til einstaklinga, enga aukningu inn í málaflokkinn aðra en vegna náttúrulegrar fjölgunar í þessum málum.

Þarna hefur okkur mistekist sem samfélagi. Það er þess vegna sem við þurfum nýtt kerfi til þess að aðstoða ungt fólk til þess að detta ekki út af vinnumarkaði eins og er að gerast í dag. Þess vegna þurfum við nýtt kerfi. Það er þess vegna sem við þurfum samhliða því aukningu til þeirra sem verst standa. Það er þess vegna (Forseti hringir.) sem ég segi já við þessari tillögu, vegna þess að við erum ekki komin á leiðarenda. Við erum í þessu verkefni. Þess vegna get ég með góðri samvisku sagt já hér í kvöld. Ég vonast til þess að það verði stuðningur við málið frá stjórnarandstöðunni þegar það kemur hér inn í þingið, (Forseti hringir.) að berjast fyrir breyttu kerfi í þessum málum.

(Forseti (SJS): Þingmaðurinn segir já.)