149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

gjaldskrárhækkanir.

[10:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Í gjaldabreytingum fjárlagafrumvarpsins erum við með tvenns konar pakka af gjöldum. Við erum með almenn krónutölugjöld og skatta sem við höfum að jafnaði látið taka breytingum í samræmi við verðlag, þó þannig að á undanförnum árum höfum við sett okkur það viðmið að fara ekki yfir 2,5%. Það kom meira að segja ár hérna fyrir nokkrum árum þar sem við sögðum 0% hækkun á öll almenn krónutölugjöld. Við stöndum við það í fjárlagafrumvarpinu að fara ekki yfir 2,5%. Það átti upphaf sitt í samtali við vinnumarkaðinn sem sagði að ríkið mætti ekki vera leiðandi í verðbólguþróun í landinu og mér finnst það bara fín stefna.

Á næsta ári er spáð 3,6% verðbólgu og þessi gjöld hækka bara um 2,5% þannig að þau gefa eftir að raungildi. Síðan eru önnur gjöld sem hafa ekki breyst, dómsmálagjöld og ýmis önnur gjöld, sem eru ekki í þessum pakka af krónutölugjöldum og sköttum sem við erum að færa upp til verðlags. Sum þeirra hækka töluvert. Eins og kom fram við atkvæðagreiðslur í gær standa mörg þeirra gjalda örugglega ekki undir þeim kostnaði sem þeim var upphaflega ætlað að standa undir en þau munu hafa nánast engin áhrif á verðlag í landinu vegna þess að þau leggjast þannig út í vísitöluna.

Síðan um önnur gjöld. Við erum að þróa kerfi og kolefnisgjaldið er hluti af stærra kerfi. Á móti kolefnisgjaldinu erum við með mjög umfangsmikið kerfi vörugjalda fyrir innflutning á bifreiðum og við ívilnum alveg sérstaklega rafmagnsbifreiðum og öðrum umhverfisvænum farartækjum, gefum þar eftir opinber gjöld í stórum stíl til að breyta samsetningu flotans. Það verður að horfa á þetta í heildarsamhengi þegar lagt er mat á hversu íþyngjandi þetta er. Þetta er allt saman hugsað til að ná fram breytingu og það gengur ágætlega eftir núna.