149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

gjaldskrárhækkanir.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er kannski þannig þegar maður er búinn að gera svo mikið á stuttum tíma að listinn fer að styttast. (Gripið fram í.) Þegar við höfum tekið hátt í 2.000 vörugjöld og varpað fyrir róða og fellt niður alla tolla höfum við náð miklum árangri. Ég hafði aldrei trú á sykurskattinum vegna þess að það voru engin merki um að hann ylli neyslubreytingu. Ég held að allar hugmyndir um einhvers konar sykurskatt upp á 1, 2, 3 milljarða muni nákvæmlega engu breyta, það muni enginn árangur fást af því annar en fyrir ríkissjóð. Það verði allt saman á kostnað heimilanna. Það held ég að menn verði bara að horfast í augu við. Ef menn ætla að nýta slík úrræði þarf að gera það af mjög mikilli hörku þannig að fólk finni virkilega fyrir því og ég er ekki talsmaður þess.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að við eigum að hafa augun opin fyrir því að létta af fólki óþarfagjöldum. Í samhengi við samgöngur í landinu held ég að (Forseti hringir.) hætturnar í okkar kerfi í dag séu þær að tæknibreytingarnar verði ekki nægilega hraðar til að við náum þeim árangri sem að er stefnt.