149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

dvalarleyfi barns erlendra námsmanna.

[10:54]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Hér vísar hv. þingmaður til ákvörðunar Útlendingastofnunar sem ekki er opinber og hefur ekki verið kynnt mér, enda svo sem ekki ástæða til. Útlendingastofnun vinnur bara samkvæmt lögum. Ef lög kveða ekki á um það að menn fái dvalarleyfi við tilteknar aðstæður sérstaklega ber Útlendingastofnun að fylgja því og veita ekki dvalarleyfi. Það að börn fæðist hér á Íslandi og foreldrarnir hafi tímabundið dvalarleyfi og börnin fái ekki dvalarleyfi af þeirri ástæðu er í sjálfu sér ekki neitt nýmæli. Svipaðar reglur gilda víðast hvar annars staðar. Börn Íslendinga fá ekkert endilega dvalarleyfi erlendis þótt íslenskir foreldrar þeirra hafi tímabundið dvalarleyfi erlendis.

Hins vegar liggur fyrir að þessum börnum er ekki vísað brott úr landi. Ákvarðanir Útlendingastofnunar lúta aldrei að brottvísun. Börn hafa fengið kennitölu og verið skráð í þjóðskrá, utangarðsskrá svokallaða, í þessum aðstæðum. Það hafa ekki verið vandkvæði á því að þessi börn njóti þeirrar þjónustu sem börn eiga rétt á hér á Íslandi.

Hitt er annað mál að það er til skoðunar í ráðuneytinu, m.a. á vettvangi þverpólitískrar þingmannanefndar, að breyta lögunum og gera það skýrt að þau börn sem fæðast hér fái sambærilegt dvalarleyfi og foreldrar hafa sem er þá tímabundið dvalarleyfi og getur ekki verið grundvöllur til áframhaldandi eða ótímabundins dvalarleyfis hér á landi. Þetta er allt til skoðunar og ég mun fylgja því eftir á næstu vikum og mánuðum og ljúka þeirri skoðun með einhverri niðurstöðu innan tíðar.