149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

húsnæðisbætur.

140. mál
[16:01]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Ég kem eiginlega upp til að taka undir að alveg mætti skoða það að fella út c-lið. 9. gr þar sem segir að um sé að ræða íbúðarhúsnæði hér á landi sem felur í sér venjulega og fullnægjandi heimilisaðstöðu þar sem er að lágmarki eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða séreldunaraðstöðu, sérsnyrtingu eða og baðaðstöðu. Við verðum þó alltaf að tryggja, eins og kom aðeins fram í máli hv. þingmanns, að um sé að ræða fullnægjandi húsnæði, að við stöndum ekki frammi fyrir því að vera kominn með fullt af fólki í vöruskemmum í miður í góðu standi, að við séum með einhvers konar skilyrði. Ég held reyndar að við séum alveg með þau af því að þetta þarf að vera viðurkennt íbúðarhúsnæði til að fá húsnæðisbætur.

Svo er það þetta með að allt þurfi að vera prívat. Ég held að það sé þróun borgarinnar, höfuðborgarsvæðisins og mögulega líka annarra byggðakjarna á landinu þar sem húsnæðisskortur hefur ríkt, og kannski líka breyttur hugsunarháttur, að þurfa ekki alltaf að eiga allt út af fyrir sig, að þurfa ekki að búa stórt. Manni finnst einhvern veginn eins og þetta sé að breytast svolítið hjá okkur, að við séum alveg til í að fara aðeins til baka og jafnvel deila svolítið okkar á milli húsnæði og öðru.