149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[15:56]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þessa umræðu sem snýr að flugmálum, aldrei leiðinlegt að tala um þau. Hér er verið að ræða um aðkomu Samgöngustofu að rekstri flugfélaga á Íslandi. Ég vil bara koma inn á það að ég efast um að fylgst sé jafn vel með nokkurri annarri atvinnugrein hér á landi eða almennt í heiminum af eftirlitsaðilum og þessari grein. Löggjöf og reglugerðir og aðrir slíkir þættir eru hvergi meiri, held ég að sé óhætt að segja, en í flugrekstri.

Hér er spurning um hvert inngrip manna eða stofnana eigi að vera í slíkan rekstur þegar kemur að þeim dæmum sem hér eru rakin. Reyndar var flugrekstrarleyfi Primera gefið út af hjá dönskum og lettneskum stjórnvöldum. Það sneri ekki beint að íslenskum stjórnvöldum. En það má kannski koma fram að Wow fór aldrei í þrot. Það var gripið inn í það ferli áður en kom að því.

Hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fór mjög vel og á miklum hraða í gegnum það flókna eftirlit sem er í gangi og hvaða kröfur þarf að uppfylla á mörgum sviðum í flugrekstri. Lykilatriði í flugrekstri, aðalatriðið, er öryggi, öryggi er haft að leiðarljósi í öllu því sem þar fer fram. Þar er líka komið að rekstrarafkomu félaganna og öðrum slíkum þáttum.

Ég vil síðan rétt koma inn á það sem hv. þingmaður sem kom hingað á undan mér í ræðustól fór svolítið hratt yfir, varðandi stjórnvöld, sofandahátt og að ekki sé mörkuð stefna og annað. Það hefur aldrei verið unnið jafn mikil stefnumótandi vinna og sú sem verið er að vinna núna á vegum íslenskra stjórnvalda varðandi ferðaþjónustu og einkum þá flugrekstur. Það hefur aldrei verið lögð jafn mikil vinna í slíka þætti (Forseti hringir.) eins og er nákvæmlega í gangi þessa stundina, svo því sé haldið til haga.