149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[16:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Þessa umræðu hérna er hægt að nálgast út frá ansi mörgum sjónarhornum, enda er umræðuefnið eins og það er sett fram af hv. þm. Birgi Þórarinssyni mjög vítt og það hefur endurspeglast svolítið í þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar.

Það sem mig langar að koma inn á er að mér finnst mjög mikilvægt það sem hér hefur komið fram um að samráðshópi nokkurra ráðuneyta hafi verið falið af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja mat á þörf fyrir viðbúnaðaráætlun fyrir kerfislega mikilvæg fyrirtæki, að það sé þörf á því að vinna að svona viðbúnaðaráætlun. Þetta tel ég að sé mjög mikilvægt og raunar mikilvægt í ýmiss konar samhengi að svona viðbúnaðaráætlun liggi fyrir um kerfislega mikilvæg fyrirtæki. Það segir sig sjálft að við hljótum að vilja hafa einhverja áætlun um þau ef við höfum áhyggjur af stöðu þeirra.

En ég held að það sé fleira sem hér væri hægt að líta til og taka undir þegar þetta er rætt. Hv. þm. Birgir Þórarinsson nefndi einmitt orðið þjóðaröryggi. Ég held að það skipti máli t.d. í miklu víðara samhengi, ekki bara að því er varðar þá mikilvægu atvinnugrein sem ferðamannaiðnaðurinn er heldur hreinlega mikilvæg aðföng til landsins, svo sem matvæli og annað. Ég held að þetta skipti allt saman mjög miklu máli. Ég vil bara þakka hæstv. ráðherra fyrir svör um það hvernig á þessari vinnu er haldið. (Forseti hringir.) Ég hlakka til að hlusta á frekari umræðu, sem ég hugsa að geti farið svolítið út um víðan völl.